Nýjast á Local Suðurnes

Mikilvægt að vel takist til við heildaruppbyggingu alþjóðaflugvallarins

Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar telur mikilvægt að sameiginleg heildarsýn fyrir skipulag, uppbyggingu og þróun í nágrenni við Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði mótuð hið fyrsta og verkefnum forgangsraðað. Bæjarstjórn telur hagsmunum sveitarfélaganna og flugvallarsvæðisins best borgið með  samvinnu sveitarfélaganna þriggja í nágrenni við flugstöðina, þ.e. Sandgerðisbæjar,  Sveitarfélagsins Garðs og  Reykjanesbæjar, auk Þróunarfélags Keflafvíkuflugvallar (Kadeco),  Isavia og Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja.

Þá vilja bæjaryfirvöld í Sandgerði að samkomulag í anda þess sem gert var árið 2010 verði gert um þetta viðamikla verkefni sem framundan er í uppbyggingu svæðisins. Sandgerðisbær vill að sveitarfélögin beiti sér fyrir því að ríkisvaldið veiti fjármagni sem fæst af sölu fasteigna á fyrrum varnarsvæði til uppbyggingarinnar í kringum alþjóðaflugvöllinn á Miðnesheiði. Þetta er meðal þess sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar í gær 1. mars um áherslur í skipulagsmálum og samvinnu norðan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Þessi mál hafa verið til umræðu innan sveitarfélagsins og milli sveitarfélaganna, Isavia og Þróunarfélags Kelfavíkurlfugvallar í ljósi þeirrar miklu uppbyggingar sem  framundan er í nágrenni við flugvallarsvæðið vegna mikillar aukningar flugumferðar og sívaxandi fjölda flugfarþega.

Isavia hefur þegar kynnt þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar sem tekur á skipulagssvæði flugvallarins og hefur verið gott samráð við Sandgerðisbæ um gerð hennar. Þróunaráætlunina má  nýta sem tæki til frekari stefnumótunar við uppbyggingu á sæðinu. Ljóst er sveitarfélögin á svæðinu og aðilar sem að uppbyggingunni munu koma eiga mikið verkefni fyrir höndum. Mikilvægt er að vel takist til við samræmingu og heildaruppbyggingu þessa mikilvæga svæðis sem alþjóðaflugvöllurinn og umhverfi hans er.