Nýjast á Local Suðurnes

Nexis vill stuðla að bættri líðan með því að nýta vinnutíma til heilsueflingar

Lýðheilsufræðingurinn Jóhann Friðrik Jóhannsson starfrækir nýtt íslenskt heilbrigðisfyrirtæki, Nexis, á Ásbrú í Reykjanesbæ. Fyrirtækið vinnur að þróun heilsueflingarlausna fyrir íslenskan vinnumarkað, auk þjónustu er varðar heilsufarsmat, ráðgjöf  og fræðslu.

Jóhann Friðrik, sem er heilbrigðis- og lýðheilsufræðingur, hefur víðtæka reynslu í þessum efnum, en auk þess að starfa við fyrirtæki sitt er Jóhann sjórnarmaður í félagi lýðheislufræðinga. Jóhann segir markmið fyrirtækisins vera að stuðla að bættri heilsu fólks meðal annars með því að nýta vinnutíma, en eins og gefur að skilja eyðir fólk þar miklum tíma.

Jóhann Friðrik Friðriksson

Jóhann Friðrik Friðriksson

Markmið Nexis er að innleiða heildræna heilsuvernd inn í fyrirtæki og stofnanir og stuðla þannig að bættri heilsu starfsmanna og samfélagsins alls. Vinnustaðurinn er ákjósanlegur vettvangur til heilsueflingar því þar eyða starfsmenn drjúgum tíma dags.

Fyrirtækið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja til að vinna að markaðssetningu heilsueflingarkerfis fyrir fyrirtæki og stofnanir á Íslandi ásamt tengdri þjónustu. Verkefnið byggir á fjölþjóðlegu samstarfi sérfræðinga á sviði lýðheilsu, sem hafa það að markmiði að efla heilbrigði meðal almennings.

Jóhann Friðrik segir að Suðurnesin séu ákjósanlegur staður til að vinna í málum sem snúa að innleiðingu heilsueflingaráætlunar þar sem fyrirtæki og stofnanir marka sér langtíma stefnu og markmið.

„Erlendis á sér stað mikil vakning á sviði heilsueflingar í kjölfar rannsókna sem sýna ótvíræðan árangur af slíku starfi. Það er markmið Nexis að leiða vitundarvakningu um heilsueflingu og heilsueflandi vinnustað og hvergi betra að byrja en einmitt á Suðurnesjum þar sem hjarta skólahreysti og íþrótta slær.“  Segir Jóhann Friðrik.

En hvað er heilsufarsefling?

„Heilsuefling, eins og orðið ber með sér, gengur út á það að efla heilsu okkar með því að fyrirbyggja sjúkdóma, stuðla að forvörnum og veita stuðning til lífstílsbreytinga. Heilsuefling tekur meðal annars til félagslegra, andlegra og umhverfislegra áhrifaþátta heilbrigðis þar sem markmiðið er að hafa jákvæð áhrif á heilsu einstaklinga og hópa. Rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda sýna að hegðun hefur afgerandi áhrif á heilsu okkar yfir ævina en enginn annar þáttur vegur þyngra.“ Segir Jóhann Friðrik og bætir við:

„Um þó nokkurt skeið hafa vísindamenn og sérfræðingar á sviði heilbrigðismála bent á þá staðreynd að hægt sé að nýta virka heilsueflingu til þess að fyrirbyggja, meðhöndla eða draga úr áhrifum lífstílstengdra sjúkdóma. Má þar helst nefna sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdóma, ákveðnar tegundir krabbameina o.fl. Embætti landlæknis hefur leitt heilsueflingu hér á landi þar sem áhersla hefur verið lögð á heilsueflingu innan leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla auk þess sem verkefnið Heilsueflandi samfélag hefur gefið góða raun.

Heilsuefling innan vinnustaða er eitt af áhersluþáttum nýsaþykktar lýðheilsustefnu ríkisstjórnarinnar þar sem heilsu- og vinnuvernd leggur grunninn að langtíma stefnumörkun og árangri. Mikið er í húfi fyrir starfsmenn, stjórnendur og samfélagið þegar kemur að heilsu. Vinnustaðurinn er mjög stór áhrifaþáttur í því sambandi því yfir 65% af öllum Íslendingum eyða 1/3 sólarhringsins í vinnunni. Kostnaður einstaklinga, fyrirtækja og heilbrigðiskerfisins af heilsuleysi er gríðarlegur. Því höfum við hjá Nexis meðal annars ákveðið að einbeita okkur að vinnustöðum á Suðurnesjum með það að markmiði að bæta heilsu starfsmanna með sannreyndum aðferðum.“

Í maí síðastliðnum var haldið málþing sem bar yfirskriftina Mikilvægi heilsueflingar á íslenskum vinnumarkaði og segir Jóhann að þar hafi komið fram að Íslendingar eyði mun meiritíma við vinnu, en skili þó minni framleiðni en margar aðrar þjóðir.

„Markmið málþingsins var að ræða stöðu heilsueflingar á íslenskum vinnustöðum og þá möguleika sem felast í heilsueflingu fyrir starfsmenn, fyrirtæki og samfélagið. Þátttakendur í málþinginu komu frá Embætti landlæknis, Vinnueftirlitinu, ráðherranefnd um lýðheilsu, Samtökum atvinnulífsins, íslenskum fyrirtækjum auk sérfræðinga á sviði heilsueflingar hér á landi.“  Segir Jóhann Friðrik.

Á málþinginu flutti Jóhann Friðrik erindi þar sem meðal annars var farið yfir þá þætti sem einkenna heilsueflandi vinnustað og langtíma heilsueflingaráætlun.

„Það kom meðal annars fram í erindi mínu á málþinginu að rannsóknir sýna að fyrirtæki sem innleiða slíka stefnu njóta ávinnings í formi aukinnar viðskiptavildar, eru líklegri til þess að draga að sér hæft starfsfólk og bæta ímynd sína. Framleiðni eykst einnig hjá þeim fyrirtækjum sem leggja áherslu á heilsu starfsmanna en í dag vinnum við Íslendingar fleiri vinnutíma en skilum þó minni framleiðni en margar aðrar þjóðir.“ Segir Jóhann Friðrik.

Á málþinginu komu einnig fram upplýsingar um ótvíræðan ávinning af heilsueflingu en kostnaðurinn af vel skipulagðri heilsueflingu skilar sér yfirleitt margfalt til baka.

„Á næstu vikum mun starfsfólk Nexis kynna starfsemina og þá þjónustu sem Nexis býður uppá á svæðinu.  Meðal annars erum við að fara af stað með námskeið þar sem áherslan er heilsa og vaktavinna. Stór hópur fólks vinnur vaktavinnu á svæðinu og vaktavinna getur haft neikvæð áhrif á heilsu. Á námsekiðinu verður farið yfir helstu áhrifaþætti og hvernig megi fyrirbyggja og draga úr óæskilegu áhrifum vaktavinnu á heilsu og líðan. Mikið álag hefur fylgt auknum ferðamannastraumi til landsins og því enn mikilvægara að veita fólki í vaktavinnu fræðslu og góð ráð til þess að brenna ekki út í starfi.

Það er von mín að íbúar, fyrirtæki og stofnanir nýti sér þjónustuna sem Nexis hefur uppá að bjóða, því öll viljum við vera við góða heilsu og njóta lífsins saman.“ Sagði Jóhann Friðrik að lokum.