Nýjast á Local Suðurnes

Elvar með stórleik í sigri Barry – “Snýst um að ná því besta út úr sjálfum sér og liðsfélögunum”

Mynd: Heimasíða Barry háskóla

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson átti enn einn stórleikinn með liði Barry háskóla þegar liðið lagði sterkt lið West Florida í NCAA-keppninni í bandaríska háskólaboltanum í körfuknattleik í gær. West Florida er níunda besta lið keppninnar og það sterkasta sem lið Barry hefur lagt að velli hingað til.

Elvar Már var lang stigahæstur í liði Barry að þessu sinni, en hann skoraði 23 stig í leiknum sem endaði 90-73,  auk þess að gefa níu stoðsendingar.

“Þegar við erum komnir á þetta stig á tímabilinu, þá snýst þetta um að hafa gaman að því sem maður er að gera og að ná því besta út úr sjálfum sér og liðsfélögunum.” Sagði Elvar Már í spjalli við heimasíðu Barry háskóla að leik loknum.

Næsti leikur Barry í keppninni er í kvöld gegn Claflin háskóla.