Nýjast á Local Suðurnes

Allt undir hjá Njarðvík í Dominos-deildinni – “Óskum innilega eftir stuðningi í kvöld”

Njarðvíkingar taka á móti ÍR-ingum í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld, í leik sem skiptir sköpum, en tap gæti þýtt að liðið nái ekki inn í úrslitakeppni deildarinnar. Leikurinn fer fram í Ljónagryfjunni og vonast þjálfarinn, Daníel Guðni Guðmundsson, eftir því að sem flestir láti sjá sig á leiknum og styðji við bakið á Njarðvíkingum í þessum mikilvæga leik.

“Við eigum mikilvægasta leik tímabilsins í kvöld gegn ÍR í Ljónagryfjunni. Við piltarnir óskum innilega eftir ykkar stuðningi því þið eruð klárlega 6.maðurinn og það er ómetanlegt að fá að spila fyrir framan fulla stúku á heimavelli.” Segir Daníel Guðni í pistli á heimsíðu Njarðvíkur.

Til að auka enn á vandræði Njarðvíkinga, sem hafa tekið þátt í úrslitakeppni undanfarin 23 ár, er staða liðsins þannig að Njarðvíkingar eru undir í innbyrgðisviðureignum við flest lið í kringum sig.

Leikurinn fer sem fyrr segir fram í Ljónagryfjunni og hefst klukkan 19:15.