Nýjast á Local Suðurnes

Hljómlist án landamæra í Hljómahöll á sumardaginn fyrsta

Fimmtudaginn 21.apríl, á sumardaginn fyrsta kl. 20:00, fara fram í fyrsta sinn einstakir tónleikar í Hljómahöll í Reykjanesbæ sem bera nafnið „Hljómlist án landamæra“. Eins og nafnið gefur til kynna eru um að ræða viðburð í tengslum við listahátíðina „List án landamæra“ sem notið hefur verðskuldaða athygli á landsvísu á undanförnum árum. Sérkenni og jafnframt helsti styrkleiki hátíðarinnar er að þar gefst öllum sem áhuga hafa, tækifæri á að koma listsköpun sinni á framfæri og fjölbreytileikanum í mannlífinu er fagnað.

Tónleikarnir eru samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og Listar án landamæra. Á tónleikunum leiða saman hesta sína fatlaðir og ófatlaðir tónlistarmenn frá Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og Akranesi.

Fram koma Salka Sól, Valdimar, Friðrik Dór, Már Gunnarsson, feðgarnir Sigurður Guðmundsson, Guðmundur Óskar Guðmundsson og Guðmundur Sigurðsson, Davíð Már Guðmundsson, Margeir Steinar Karlsson, Trúbadoradúettinn Heiður, Thomas Albertsson, Sönghópur Suðurnesja undir stjórn Magnúsar Kjartanssonar, Ragnar Vilberg, Lára Ingimundardóttir og Sönghópurinn Gimsteinar ásamt fleirum. Kynnar á tónleikunum verða hinir óviðjafnanlegu Auddi og Steindi.

Aðgangur er ókeypis og vonast aðstandendur til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta og berja okkar bestu listamenn augum. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.