Nýjast á Local Suðurnes

Palla-ball og Voice stjarnan Ellert Heiðar á Sjóaranum síkáta

Bæjarhátíðin Sjóarinn síkáti í Grindavík fagnar 20 ára afmæli í ár og Sjómanna- og vélstjórafélagið 60 ára afmæli og því verður öllu til tjaldað að gera hátíðina sem glæsilegasta í ár en hún fer fram dagana 3.-5. júní n.k.

Á meðal þeirra sem búið er að bóka á Sjóarann síkáta er Páll Óskar sem kemur fram bæði á Bryggjuballi og verður með Palla-ball í íþróttahúsinu. Bræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssynir munu skemmta saman ásamt hljómsveit. Heimamaðurinn Ellert Heiðar Jóhannsson sem sló í gegn í The Voice treður upp ásamt hljómsveit sinni og Ingó Veðurguð sér um brekkusöng. Þá mun hópur tónlistarfólks í Grindavík standa fyrir klassískri rokkhátíð, svo eitthvað sé nefnt. Barnadagskráin verður í öndvegi en búið er ráða m.a. Villa og Góa, Gunna og Felix, Einar Mikael, íþróttaálfinn, Sollu stirðu, Sigga sæta, Gogga Mega, Sirkus Ísland, Pílu pínu, brúðubílinn o.fl.

Sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti í Grindavík hefur fest sig í sessi sem ein skemmtilegasta og fjölbreyttasta bæjarhátíð landsins haldin um Sjómannadagshelgina til heiðurs íslenska sjómanninum og fjölskyldu hans. Hátíðin fagnar 20 ára afmæli í ár og þá fagnar Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur60 ára afmæli í ár. Því verður hátíðin í ár glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Björgunarsveitin Þorbjörn kemur að skipulagningu og gæslu á hátíðinni með öflugum hætti að vanda. Hátíðin hefur vaxið með hverju árinu, þar er fjölbreytt dagskrá alla helgina en mikið er lagt upp úr vandaðri barnadagskrá. Um 25 þúsund gestir voru á hátíðinni í fyrra.