Nýjast á Local Suðurnes

Ýmis vandamál fylgja rafmagnsleysi – Notendur hvattir til að hafa samband

Eins og flestir íbúar Suðurnesja tóku eftir fór rafmagn af öllum Suðurnesjum klukkan rúmlega þrjú, með þeim afleiðingum að heimili og fyrirtæki urðu rafmagnslaus. Þá stöðvaðist heitavatnsframleiðsla í Svartsengi og því varð heitavatnslaust hjá notendum. Einnig hafði rafmagnsleysi mikil áhrif á þrýsting vatnsveitunnar, segir í tilkynningu frá HS Veitum

Vinnuflokkar Landsnets og HS Veitna hófu strax bilanaleit og fljótlega kom í ljós hvað olli bilun. Viðgerð gekk vel og voru allir notendur komnir með rafmagn klukkan 18:15.

Fljótlega eftir að rafmagn kom á gat HS Orka hafið heitavatns framleiðslu í Svartsengi á ný og í framhaldi af því gátu HS Veitur farið í að byggja upp þrýsting á dreifikerfinu, en langan tíma getur tekið að ná eðlilegum hita og þrýstingi hjá notendum á ný.


Eftir svona stóra bilun geta komið upp ýmis vandamál hjá notendum. Viðskiptavinum er bent á að hafa samband við þjónustuver HS Veitna með því að senda tölvupóst á netfangið hsveitur@hsveitur.is, í gegnum netspjallið á heimasíðunni eða í síma 422 5200, segir í tilkynningunni.