Nýjast á Local Suðurnes

Aðventugarðurinn opnar á laugardag

Aðventugarðurinn á Tjarnargötutorgi og í skrúðgarði opnar formlega á laugardag þegar kveikt verður á ljósaskreytingum og ljósin tendruð á jólatrénu á torginu.

Markmið Aðventugarðsins er að lýsa upp svartasta skammdegið og skapa góða og notalega stemningu fyrir fjölskylduna í aðdraganda jóla, segir á vef Reykjanesbæjar.

Á torginu hafa verið settir upp söluskúrar sem opnir verða á laugardögum frá kl. 12-17 og á Þorláksmessu frá kl. 16-23. Þar gefur að líta handverk, sérvöru, veitingar og varning sem seldur verður í fjáröflunarskyni og verður vafalítið hægt að gera góð kaup í jólapakkann.

Óvæntar uppákomur verða einnig í garðinum og aldrei að vita nema jólasveinar og Grýla láti sjá sig. Ljúfir tónar munu óma og til dæmis verður hægt að kaupa sykurpúða og snúrubrauð til að grilla yfir eldstæði. Þá verður einnig boðið upp á jólalegan ratleik í skrúðgarðinum þar sem börn af leikskólum bæjarins eru einnig þessa dagana að hjálpa til við að skreyta.

Nú á laugardaginn fær Aðventugarðurinn góða heimsókn þegar „Götubiti á jólum“ mætir á svæðið en þar eru á ferðinni nokkrir matarvagnar sem eru komnir í jólabúninginn og munu bjóða upp á gómsætan jólamatseðil. Matarvagnarnir verða á svæðinu frá kl. 15-18.

Í ljósi ástandsins er mjög mikilvægt að allir leggi sig fram við að hafa sóttvarnir í hávegum. Til að tryggja sem best öryggi allra er grímuskylda í Aðventugarðinum og fólk beðið að sýna tillitssemi og umburðarlyndi og huga vel að tveggja metra reglunni. Þeir sem sýna einkenni kvefs eða annarra veikinda eru vinsamlegast beðnir um að fylgja fyrirmælum og halda sig heima. Við minnum á að verslanir við Hafnargötu eru líka opnar svo og söfnin okkar og því um að gera að dreifa sér um bæinn og njóta þess sem þar er boðið upp á. Grýla er t.d. í aðalhlutverki í Bókasafninu og í Duus Safnahúsum er boðið upp á jólasveinaratleik og jólastofu og þar leynast líka þau Grýla og Leppalúði. Á laugardag opnar þar myndlistarsýningin 365 þar sem getur að líta verk eftir 365 myndlistarmenn sem mörg hver verða til sölu.