Nýjast á Local Suðurnes

Þekktar byggingar til sölu – Viltu eignast sundhöll eða slipp?

Undanfarið hafa tvær sögufrægar byggingar á Suðurnesjum verið verið auglýstar til sölu, um er að ræða annars vegar húsnæði Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, þann part sem nú hýsir skrifstofur fyrirtækisins, sem auglýst er á um 75 milljónir króna og hins vegar byggingar gömlu sundhallarinnar við Framnesveg í Keflavík, en ásett verð á þeirri fasteign er tæplega 40 milljónir króna.

Starfsemi Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur við Sjávargötu spannar yfir 70 ár, fyrirtækið er eitt elsta iðnfyrirtækið á svæðinu, stofnað árið 1945 og hefur verið starfrækt síðan á sama stað. Húsnæði stöðvarinnar hefur verið á sölu um nokkurt skeið, en nýlega var skipulagi svæðisins breytt á þann veg að mögulegt er fyrir áhugasama kaupendur að byggja ofan á það húsnæði sem fyrir er og byggja upp hótelrekstur, en leyfi er fyrir allt að 150 rúmum í stækkaðri byggingu.

Ekki stendur til að breyta rekstri Skipasmíðastöðvarinnar heldur er vonast til að starfsemi hennar muni bjóða upp á skemmtilega upplifun fyrir gesti hótelsins þegar unnið er við stór skip á svæði stöðvarinnar.

sundholl

Þeir eru margir sem eiga góðar minningar sem tengjast gömlu sundhöllinni við Framnesveg, húsið var byggt sama ár og húsnæði Skipasmíðastöðvarinnar, 1945. Unadanfarin ár hefur Hnefaleikafélag Reykjaness haft æfingaaðstöðu í húsnæðinu, sem er um 570 fermetrar að stærð, fram kemur í auglýsingu að eignin sé í slæmu standi. Við bygginguna er svo 113 fermetra opið svæði með heitum pottum.

Í auglýsingu kemur fram að lóðin sé 1.444,9 fermetra leigulóð. Þá segir í auglýsingu að mögulegt sé að rífa húsnæðið og byggja fjölbýlishús á lóðinni, en tekið er fram að lóðin sé í deiliskipulagsferli.