Líklegt að Elvar gangi til liðs við Njarðvíkinga

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er á förum frá franska félaginu Denain eftir að félagið sagði upp samningi við hann. Líklegast er að hann gangi til liðs við uppeldisfélag sitt, Njarðvík, áður en félagaskiptaglugginn lokast í næstu viku.
Samningi Elvars var sagt upp í kjölfar þess að annar íslendingur, Kristófer Acox, sagði upp samningi sínum við liðið. Denain fékk þá til liðs við sig reynslumikinn bakvörð og sagði upp samningi Elvars..
„Ég ætla að bíða og sjá hvað umboðsmaðurinn segir, en að öðrum kosti spila ég heima í einhvern tíma,“ segir Elvar, og þá liggur beinast við að hann snúi aftur til Njarðvíkur: „Ég hef ekki alveg ákveðið það en það yrði auðveldast fyrir mig. Ég þekki vel til þjálfara og leikmanna, svo það væri þægilegasti kosturinn. En ég stefni enn þá á að komast eitthvað annað hérna úti,“ segir Elvar í samtali við mbl.is.