Nýjast á Local Suðurnes

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja úthlutar 45 milljónum króna til 35 verkefna

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja hefur úthlutað styrkjum fyrir árið 2016. Umsóknir til Uppbyggingarsjóðsins voru 63 og hljóðuðu styrkbeiðnirnar upp á rúmar 127 milljónir króna. Að þessu sinni er úthlutað 45 milljónum króna til 35 verkefna.

Sjö verkefnanna flokkast undir stofn- og rekstrarstyrki til menningamála og hljóta þau verkefni alls 10,8 milljónir í styrk. Fimmtán verkefnanna tilheyra menningarmálum og hljóta þau verkefni alls 13,3 milljónir í styrk. Þrettán verkefnanna eru nýsköpunar- og þróunarverkefni og hljóta þau verkefni alls 20,9 milljónir í styrk.

Hæsta styrkinn að þessu sinni, 3,5 milljónir króna, hlýtur verkefnið Reykjanes Aurora.  Og segir í umsögn um verkefnið að það lúti að þróun og uppbyggingu í ferðaþjónustu á Reykjanesi. Verkefnið er til þess fallið að skapa svæðinu enn meiri sérstöðu en nú er, laða að fleiri ferðamenn og fjölga störfum.

Uppbyggingarstjóðurinn styrkir menningarverkefni um rúmar 10 milljónir að þessu sinni og fá Safnahelgi á Suðurnesjum og Byggðasafnið á Garðskaga hæstu styrkina, eða 2 milljónir króna hvort verkefni. Nokkur sprotafyrirtæki eru styrkt að þessu sinni, geoSilica, Mekano, pich ehf., og Nexis fá til að mynda veglega styrki til markaðssetningar á vörum sínum.

Upplýsingar um verkefnin og upphæðir styrkja má finna hér.