HS Orka tryggir 40 milljarða fjármögnun
HS Orka hefur lokið við að endurfjármagna skuldir félagsins og tryggja lánalínur fyrir áframhaldandi uppbyggingu hér á landi.
Í tilkynningu kemur fram að fjármögnunin nái til yfirstandandi stækkunar og endurbóta orkuversins í Svartsengi og er mikilvægt skref í átt að metnaðarfullum áformum um frekari vöxt félagsins í jarðvarma og vatnsafli, sem byggja á orkukostum í nýtingarflokki rammaáætlunar. Lánsfjárhæðin nemur að jafnvirði um 290 milljónum dollara eða um fjörutíu milljörðum íslenskra króna og er veitt af íslenskum og alþjóðlegum bönkum og sjóðum.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, fagnar þessum mikilvæga áfanga í rekstri félagsins: „Við erum afar sátt við það að hafa lokið svo umfangsmikilli endurfjármögnun á sama tíma og við höfum þurft að mæta fjölbreyttum áskorunum í rekstri vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaganum síðustu misseri. Þetta undirstrikar styrk félagsins og trú jafnt innlendra sem erlendra lánveitenda á vaxtaráform okkar til framtíðar.
Það er jafnframt ánægjulegt að í hópi lánveitenda eru nýir aðilar en félagið gaf út skuldabréf á USPP (US Private Placement) markaðnum. Við erum eitt fyrsta einkarekna félagið hér á landi til að gefa út á þeim markaði og erum við stolt af því.“