Nýjast á Local Suðurnes

112 dagurinn: Opið hús hjá Rauða krossinum á Suðurnesjum

Þann 11. febrúar ár hvert er 112 daginn haldinn um land allt. Markmiðið með 112 deginum er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur getur sótt sér hjá Neyðarlínunni.

Rauði krossinn á Suðurnesjum verður með opið hús að Smiðjuvöllum 8, á milli klukkan 18 og 20 í tilefni dagsins, þar verður meðal annars boðið uppá kynningu á verkefnum Rauða krossins auk þess sem fatamarkaðurinn verður opinn þennan dag frá klukkan 13 til 20. Vöfflur og kaffi verða í boði fyrir þá sem kíkja í heimsókn.

Á meðal þess sem kynnt verður fyrir almenningi eru verkefnin Heimsóknarvinir, sem gengur út á að sjálfboðaliðar deildarinnar heimsækja einstaklinga í heimahúsum, á sambýlum og stofnunum einu sinni í viku eina klukkustund í senn, verkefnið Heimanámsaðstoð sem Rauði krossin stendur fyrir í samvinnu við Bókasafn Reykjanesbæjar verður einnig kynnt, þá verður boðið upp á kynningar á skyndihjálp og neyðarvörnum.

11. febrúar er einnig alþjóðadagur Ladies Circle samtakanna og munu konur úr Suðurnesjadeild LC vera Rauða krossinum til aðstoðar í tilefni dagsins, þær munu meðal annars starfa við afgreiðslu á fatamarkaðnum auk þess sem þær munu bjóða upp á tískusýningu í tilefni dagsins.