Nýjast á Local Suðurnes

Thorsil og United Silicon hafa enn ekki gengið frá greiðslum til Reykjaneshafnar

Svo gæti farið að stjórn Reykjaneshafnar, samþykki að seinka fyrsta gjalddaga Thorsil á gatnagerðargjöldum í sjötta sinn, en fyrirtækið hefur enn ekki greitt um 140 milljónir króna sem áttu að greiðast þann 15. maí síðastliðinn. Þetta kemur fram á vef DV.

Fyrirtækið átti upphaflega að ganga frá greiðslunni í desember 2014, en hefur síðan þá fimm sinnum fengið fresti, síðast í mars síðastliðnum.

Þann 10. maí síðastliðinn gekk fyrirtækið frá samningi við Landsvirkjun um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík í Reykjanesbæ og í febrúar skrifaði fyrirtækið undir samning við Mannvit um byggingu kísilvers fyrirtækisins í Helguvík. Verðmæti samningsins er um 4,9 milljarðar króna og nær framkvæmd hans yfir þrjú ár. Fyrirvari er í samningnum um endanlega fjármögnun byggingarframkvæmda Thorsils.

Þá er svipuð staða uppi varðandi lóðagjöld kísilverksmiðju United Silicon en samkvæmt heimildum Suðurnes.net hefur fyrirtækið ekki greitt um 100 milljón króna eftirstöðvar af gjöldum til Reykjaneshafnar. Félagið hafði þó áður greitt hluta kaupverðsins, eða 200 milljónir króna, ástæðan fyrir því að United Silicon hefur ekki greitt alla upphæðina mun vera vegna þess að Reykjaneshöfn hefur ekki staðið við ákvæði samnings um framkvæmdir við hafnargerð í Helguvík.