Nýjast á Local Suðurnes

Engin viðbrögð frá Reykjanesbæ við vinabeiðni

Engin viðbrögð hafa borist bæjarstjóra Beit Sahour í Palestínu, en sá sendi beiðni á Reykjanesbæ og þrjú önnur sveitarfélög á Íslandi um vinabæjarsamband.

Frá þessu er greint í Fréttablaði dagsins, en þar segir að bæjaryfirvöld í Beit Sahour bíði spennt eftir svörum. Að sögn upplýsingafulltrúa bæjarins er Beit Sahour þróaður bær þar sem rík áhersla er lögð á ferðaþjónustu og alþjóðleg tengsl. Alls hefur bærinn myndað vinabæjartengsl við 20 aðra bæi, víðs vegar um heiminn.

Samkvæmt heimasíðu Reykjanesbæjar eru vinabæir sveitarfélagsins fimm talsins, Kerava í Finnlandi, Kristiansand í Noregi, Midvangs kommuna í Færeyjum, Orlando í Florida og Trollättan í Svíþjóð.

Vinabæjarsamskipti eru af tvennum toga, annars vegar samstarfsverkefni um málefni sveitarfélaga, stjórnsýsluverkefni og hins vegar íþróttamót. Stjórnsýslusvið og bæjarstjóri hafa umsjón með stjórnsýsluverkefnum  og Fræðslusvið með íþróttamótum.