Nýjast á Local Suðurnes

Beruð kynfæri og offita er á meðal efnis í föstudagspistli Árna Árna

Ætli Tolli fari fram á að hljómsveitin Mannkjöt verði með öllu lögð niður eða geri kröfu um að nafninu verði breytt eftir að fótboltabulla beit í nefið á annarri fótboltabullu í Kópavogi? Það liggur fyrir að hljómsveitin kallar fram hungrið og menn svífast einskins til að finna bragðið af góðu mannakjöti.

local

Árni Árna veltir ýmsu fyrir sér í bráðskemmtilegum föstudagspistlum

„Þú gerir ekki rassgat einn“ er slagorð Guðmundar Steingrímssonar formanns Bjartrar framtíðar. Þetta á nú vel við þar sem hann hefur ekki gert rassgat í formannstíð sinni og í stað þess að fara í formannsslag og leggja verk sínar í dóm flokkssystkina mælir hann með random formennsku. Ég hef bara aldrei heyrt það áður að það skipti engu máli hver er formaður stjórnmálaflokks á Íslandi ? Því var nú skotið á mig einu sinni að ég myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn þótt það væri api í framboði. Ég ætla ekki að þræta fyrir það, en það verður að viðurkennast að fólk vill kjósa fólk og margir kjósa nú á dögum þann flokk sem hefur frambærilegasta formanninn til að leiða þjóðina, eða nei kannski ekki, Framsókn vann síðast !

Olíuverð hefur lækkað um 22% frá því í júlí. Samt vill það svo til að lækkunin hefur lítið látið á sér kræla á Íslandi. Aðal ferðamannatíminn í gangi salan í botni og þá er best að standa saman og moka soldið inn. Í hvert skipti sem verð á olíu dregst saman þá eru brigðirnar í landinu svo miklar að þær duga svo mánuðum skiptir. En ef um hækkun er að ræða þá erum við alltaf á síðasta dropanum – Ragnar Reykás hvað? Samráð eða samheldni olíufélagana í landinu minnir á gott hjónaband og sýnir okkur hvað samkeppnisstofnun og Neytendasamtökin eru í raun máttlaus fyrir hönd neytenda í landinu. Gengi krónunar, skattar og álögur er alltaf vopn þeirra sem standa að verslun og þjónustu. Hvað verða kaupmenn lengi að hækka aftur eftir að vörugjöld voru felld niður? Okkur vantar alvöru baráttumenn fyrir neytendur.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður hjólaði í vikunni í Fríhöfnina. Þessi gamli og góði vinnustaður, sem ég ber mikin yl til er að sjálfsögðu tímaskekkja. Ég er sammála Guðlaugi Þór að ríkið á ekki að standa í smásölu í beinni samkeppni við verslun í landinu. Það er góður punktur hjá Guðlaugi að það er ekki á valdi allra landsmanna að versla með ríflegum afslætti í Fríhöfninni þar sem það eru ekki allir sem ferðast. Þetta mál hjá Guðlaugi sýnir líka að Vínbúðirnar eru tímaskekkja. Ég vona að Vilhjálmur Árnason nái að keyra frumvarpið í gegn á komandi þingi. Á sama tíma og ríkið situr eins og ormur á gulli á besta verslunarrýminu í flugstöðinni seljandi vín, gotterí, sokkabuxur, verkjatöflur og bús, eru einkaaðilum eins og Kaffitár vísað dyr.

Hann misskildi eitthvað heimaþjónustu aldraða ungi pilturinn á Selfossi sem í vikunni gekk á milli heimila aldraða kvenna og beraði kynfærin sín. Þessi þjónustuliður féll að sjálfsögðu í grýtann farveg og þegar hann bauð einni að snerta sagðist hún ekki vera með gúmmíhanska og rak hann á dyr. Spurning að fara betur yfir starfslýsinguna, hún virðist vera eitthvað óljós.

Ég vona svo innilega að ég verði aldrei í þeirri stöðu að þurfa að fljúga með Uzbekistan Airways. Flugfélagið hefur tekið upp á nýjum öryggisreglum sem fela í sér að flugfarþegar eru vigtaðir áður en þeir ganga inn í vélina. Ég vona að þetta flugfélag geri ekki þau glapræði að fljúga frá Íslandi, nema að rukka ríflega fyrir aukakílóin þá fyrst fer það að borga sig. En talandi offitu, það seljast 10.000 þúsund kleinuhringir á dag á Dunkin‘ Donuts sem getur varla talist eðlilegt eða hvað ? Kleinuhringjaæði þjóðarinnar er í hámarki og hefur Hagkaup reynt að taka þátt í fjörinu með að bjóða 2 fyrir 1. Með þessu áframhaldi verðum við vigtuð í miðasölum kvikmyndahúsanna þar sem burðarþol sætanna er takmarkað.

Skemmtilegasta frétt vikunnar var birt á nýjum fréttamiðli á Suðurnesjum, sudurnes.net. Þar var tekið stutt spjall við Árna Árnason sem er einn af skipuleggjendum Keflavíkurnótta sem fram fer um helgina. Þarna var greinilega á ferðinni ferskur og skemmtilegur gaur og ég er bara ekki frá því að ég lyfti mér í miðbæ Reykjanesbæjar um helgina.

Góða helgi