Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Það var allt í fokki á Alþingi í vikunni

Allt í fokking rugli á Alþingi, Akraborgin rís úr gröf sinni og Gísli Marteinn og virðingaleysi hans í garð stuðningsmanna sinna stendur upp úr í þessari viku.

Borgarbúar standa frammi fyrir skýrum valkostum í næstu borgarstjórnarkosningum. Vilja borgarbúar borgarlínu sem lögð verður á kostnað einkabílsins og að sum hverfi borgarinnar bjóði einvörðungu upp á lestarsamgöngur þar sem einkabílinn kemst ekki um? Vilja borgarbúar, eða réttara sagt sjá borgarbúar fram á það að íbúðir í Vatnsmýrinni verði á ákjósanlegu verði til að mynda fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign? Eru borgarbúar sáttir við sölu eigna til að sýna betri rekstrarafkomu borgarinnar eða þá stefnu að stöðva lóðaúthlutanir í úthverfum í þágu uppbyggingar miðborgarinnar? Vilja allir búa í 101? Þetta eru stórar spurningar sem kjósendur þurfa að íhuga á móti öðrum valmöguleika. Að ráðist verði strax í lóðaúthlutanir í úthverfum, unnið verði að bættum samgöngum þar sem einn samgöngumáti er ekki bættur á kostnað annars samgöngumáta, tekið verði til í rekstri borgarinnar og grunnþjónusta tryggð og dregið verulega úr skuldasöfnun. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri hefur viljandi ekki úthlutað lóðum í úthverfum til að beita þrýstingi á uppbyggingu í Vatnsmýrinni. Þar skiptir engu um að fólk er á götunni, fólk er að flýja til nágrannabæjarfélaga, borgin er að tapa aðdráttaraflinu, almenningur er að gefast upp á stjórnleysinu. Það er hálf sorglegt til þess að vita að við borgarbúar eigum eftir eitt langt ár til viðbótar með Dag í borgarstjóraflokknum, ég segi bara Guð blessi Reykjavík.

Meira um borgarmálin, endurbætur á Hlemmi eru farnar langt umfram kostnaðaráætlun. Um er að ræða enn eitt gæluverkefni borgarstjórnar. Þar á að rísa matarmarkaður af erlendri fyrirmynd. Framkvæmdin mun án efa teygja sig nær 200 milljónum króna á sama tíma og ekki er til fjármagn í leikskóla og deildir standa mannlausar. Gæluverkefnin víða um borgina gefa gaum um að grunnþjónustan er aukaatriði. Gott dæmi um annað gæluverkefni er veggur á fjölbýlishúsi í Breiðholti þar sem skellt var upp málverki sem kostaði skattgreiðendur tæpar 70 milljónir. Á meðan mæta blessuð börnin í Breiðholtsskóla í myglað húsnæði á hverjum degi. Viljum við slíka forgangsröðun?

Ég veit ekki alveg með endurkomu Akraborgarinnar. Já í júní hefjast á ný siglingar á milli Akraness og Reykjavíkur sem lagðist af á sínum tíma er Hvalfjarðargöngin opnuðu. Ég veit ekki hvort ég eigi að fagna eða flissa. Ég veit ekki hvort við ættum líka að fá sykraða drykkinn Póló aftur í verslanir, eða á maður líka von á Don Cano krumpugöllunum aftur? Eða eigum við að mála strætó aftur græna? Sumt má bara kjurt liggja í fortíðinni að mínu mati, þá langar mig að vita hver kostar verkefnið? Er það bara Akraneskaupstaður eða tekur Reykjavíkurborg þátt líka? Ég veit ekki hvort ferðamenn hrúist í Akraborgina til að skoða byggðasafnið á Akranesi, en það kemur í ljós 11. Júni næstkomandi.

Gaman að sjá suma reyna að tala gegn Costco. Einn ónefndur ritstjóri vefmiðils talar um aukna mengun vegna fjarlægðar og svo virðist vera að vinstri menn eru meira á móti samkeppni og sanngjarnara vöruverði til almennings. Það kemur auðvitað ekkert á óvart, ég meina vinstri menn voru á móti litasjónvarpi og bjórnum á sínum tíma. Koma Costco hefur ýmis jákvæð áhrif í íslensku samfélagi, en auðvitað má alltaf finna eitthvað neikvætt. Við þurfum að passa okkur á að missa okkur ekki í kruðiríinu og kræsingunum svo heilsan dali ekki. En að öllu jöfnu snýst þetta um að barnmargar fjölskyldur geta sparað verulega Það hefur verið gaman að fylgjast með gleðinni á samfélagsmiðlum er fólk póstar verðmuninum, og er ekki í lagi að leyfa fólki að fagna komu Costco? Af hverju þurfa þeir sem ekki ætla sér að eiga viðskipti við fyrirtækið að rita greinar til að tilkynna þjóðinni það og reyna að draga úr gleðinni? Sumir vilja bara vera leiðinlegir, en geta þeir ekki bara gert það einir heima með svart/hvíta sjónvarpið og landabrúsann?

Ég get ekki annað en fagnað því að fljótlega verður úthlutað úr bókasafnssjóði. Einhverjar tafir hafa verið á úthlutuninni sem á að fara fram fyrir 1. Júní en samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðherra verður drifið í þessu á næstu dögum. Rithöfundar hafa beðið í örvæntingu sinni eftir styrkjum enda búið að opna Costco. Ég varla náði svefni í maí vegna málsins, en sé fram á að ég get lagt mig á meðan rithöfundarnir vaða um ganga Costco og eyða skattfénu okkar. Leiðinlegt að listamannalaun og styrkir séu eina leiðin hjá mörgum listamönnum til að eiga fyrir salti í grautinn, hvar er sjálfbærnin?

Það var allt í fokki á Alþingi í vikunni vegna skipan 15 dómara við nýjan dómstól. Jón Þór þingmaður pírata, æi þessi sem hættir reglulega, en kemur alltaf aftur, hann missti sig í ræðustól og notaði orðið fokking. Málalyktir eru í raun þær að hann tilkynnti að hann væri ekki lögfræðingur og þyrfti betri skýringar á málunum áður en þau yrðu afgreidd. Einhver þingmaður í sal brosti til hans og virtist það vera nóg til þess að þingmaðurinn sprakk og öskraði á þingheim. Forseti Alþingis bað þingmenn að vanda orðalag sitt og bað Jón því afsökunar. En þetta er orðið svo alþýðlegt á þingi, götumál unglinga er komið inn í ræður þingmanna sem líka missa stjórn á sér eins og dekraðir unglingar.

Það voru samt fleiri en Jón Þór pírati sem voru dónalegir í vikunni. Gísli Marteinn hjó í Reykjavíkurþing sjálfstæðismanna og kallaði þá 300 sjálfstæðismenn sem komu saman til að ræða málefni borgarinnar lýðskrumara. Að uppnefna fólk sem kemur saman og ræðir skandalinn í borgarmálunum með þessum hætti er hálf barnalegt af Gísla. Hann var nú hluti af þessum hópi á tímabili, stór hluti þessa fólks kaus hann í prófkjörum og stóð við bakið á honum þegar hann var borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Gísli óx frá flokknum og deilir lífssýn sinni með Degi B. Eggertssyni sem er bara allt í góðu, það geta ekki allir haft sömu sýnina í þessum málum, en Gísli er með öðrum orðum að segja fuck you við allt það fólk sem studdi hann, treysti honum og varði hann á hans pólitíska ferli í borginni – þau eiga ekki þessa framkomu skilið, það kemur mér á óvart að Gísli beri ekki virðingu fyrir fólki.

Góða helgi