Nýjast á Local Suðurnes

Nettómótið verður haldið þrátt fyrir Covid 19

Nokkrar fyrirspurnir borist mótshöldurum Nettómótsins um hvort af mótinu verði vegna kórónuveirunnar, Covid 19. Þetta kemur fram á vef Körfunnar, hagsmunafélags körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur, sem stendur fyrir mótinu.

Í tilkynningu á vefnum kemur fram að engin áform séu um að fella mótið niður.  Mótshaldarar hafa verið í sambandi við sóttvarnarsvið landlæknis og engin ástæða er talin til að falla frá fyrirhuguðum áformum.

Lögð verður áhersla á almennt hreinlæti með sérstaka áherslu á handhreinsun samkvæmt ráðleggingum. Eins er biðlað til fólks sem verið hefur að finna fyrir lasleika, verið á skilgreindum hættusvæðum s.l. 14 daga, eða sent í sóttkví, að halda sig frá mótsstöðum sem og öðrum almenningsstöðum, segir í tilkynningunni.

Á mótsstað mun jafnframt verða aðgengilegt handspritt með sýnilegum hætti og leiðbeiningar verða settar upp sem víðast með hvatningu um almennt hreinlæti og handþvott.

Mótshaldarar munu fara að öllu með gát og gefa út frekari leiðbeiningar hér á heimasíðunni og dreifa til allra liða með öðrum gögnum.

Íþróttasamband Íslands hefur jafnframt sent aðildarfélögunum sínum fjölpóst og vakið athygli á að fylgjast með nýjustu uppfærslum á vefsíðu embættis landlæknis:

Embætti landlæknis uppfærir reglulega upplýsingar á vefsíðu landlæknis hér.