Nýjast á Local Suðurnes

KSÍ úthlutar 118 Milljónum úr Mannvirkjasjóði – Milljón til Suðurnesja

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum 22. apríl síðastliðinn úthlutun úr Mannvirkjasjóði KSÍ.  Þetta í níunda skiptið sem úthlutað er úr sjóðnum en ný reglugerð um sjóðinn tók gildi í byrjun árs 2012.

Keflavík og Njarðvík fá í sinn hlut 500.000 krónur hvort lið, Keflvíkingar til endurbóta á veitingaaðstöðu fyrir áhorfendur og Njarðvíkingar til framkvæmda við æfingasvæði félagsins. Til samanburðar fara 35.000.000 króna til uppbyggingar í Hafnarfirði og 25.000.000 króna til uppbyggingar á svæði Vals að Hlíðaenda. Alls var úthlutað til 24 verkefna, samtals um 118 milljónum króna.

Í samræmi við reglugerð um sjóðinn njóta forgangs þær umsóknir sem miða að því að uppfylla kröfur vegna leyfiskerfis KSÍ. Sjóðnum er ætlað að styðja við nýframkvæmdir knattspyrnumannvirkja til þess að skapa iðkendum, stjórnendum, áhorfendum og öðrum sem besta aðstöðu.