Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjaliðin í basli í Dominosdeildinni – Vandræði Njarðvíkinga hófust á grillinu

Suðurnesjaliðin áttu í mesta basli í Dominos-deildinni í körfuknattleik í gærkvöldi. Grindavík og Njarðvík rétt mörðu sigur á sínum andstæðingum á meðan Keflvíkingar töpuðu á sterkum útivelli.

Njarðvíkingar áttu í mesta basli með að leggja sig­ur­laust lið Hatt­ar í Ljónagryfjunni í gær, en segja má að vandræðin hafi hafist fyrir leik þegar Njarðvíkingar áttu í mesta basli við að afhenda svöngum áhorfendum hamborgara af grillinu þar sem eftirspurnin var töluvert meiri en búsist hafði verið við. Leiknum lauk þó með sigri heimamanna, 86-77. Iðkendur yngri flokka Njarðvíkur settu svip sinn á Gryfjuna í gær, en krakkarnir hituðu upp með leikmönnum fyrir leik og mynduðu skemmtilega stemningu á meðan á honum stóð.

Framlengja þurfti leik ÍR og Keflavíkur, sem fram fór í Seljaskóla, en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 82-82. Lokamínútur framlengingarinnar voru síðan æsispennandi, en ÍR-ingar gulltryggðu 96-92 sigur á vítalínunni á síðustu andartökum leiksins.

Enginn útlendingur tók þátt í leik Þórs og Grindavíkur sem fram fór á Akureyri, en Grindvíkingar sem virtust ætla að landa auðveldum sigri hleyptu Þórsurum óþarflega nálægt í lokin. Lokatölur á Akureyri 79-83.

Njarðvík, Keflavík og Grindavík raða sér í 5. – 7. sæti deildarinnar, í þessari röð, Njarðvík með 14 stig en Keflavík og Grindavík með 12.