Tekinn tvisvar á innan við 15 mínútum

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði ökumann tvisvar á sama korterinu um helgina þar sem hann var á ferðinni án þess að hafa endurnýjað ökuréttindi sín. Í fyrra skiptið var útrunna ökuskírteinið tekið af honum og undirstrikað að honum væri aksturinn óheimill.
Hann lét sér þó ekki segjast og lagði af stað aftur þegar lögregla var horfin af vettvangi. Sú ökuferð varð stutt, segir í tilkynningu lögreglu, en ökumaðurinn var stöðvaður aftur innan 15 mínútna.
Þá voru sjö ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og skráningarnúmer voru klippt af ellefu bifreiðum sem ýmist voru óskoðaðar eða ótryggðar, að því er segir í tilkynningu.
Loks var einn ökumaður handtekinn grunaður um ölvun undir stýri.