Nýjast á Local Suðurnes

Sóknaráætlun Suðurnesja og Eldey tryggja rekstur Mekano í ár

Sprotafyrirtækið Mekano ehf. var stofnað í febrúar á þessu ári af Sigurði Erni Hreindal mekatróník hátæknifræðingi. Mekano stefnir að framleiðslu nýrra kynslóða fjöltengja. Um er að ræða samansett einingarfjöltengi fyrir allar gerðir raftækja og er mun minna í sniðum en þau fjöltengi sem þekkjast í dag. Markmiðið er að fækka snúrum, nýta pláss betur, ásamt því að hanna fjöltengi í nýstárlegu og stílhreinu útliti.

Viðskiptahugmyndin að Mekano hafnaði fyrr á árinu í öðru sæti í frumkvöðlakeppninni Gullegginu og var Mekano síðar valin sem besti nýliðinn í íslenskum sprotafyrirtækjum á vegum Nordic Startup Awards.

verdlaun mekano

Mekano var stofnað af Sigurði Erni Hreindal – Fyrirtækið hefur fengið fjölda viðurkenninga og styrkja fyrir frumkvöðlastarfsemi. Sigurður er til hægri á myndinni

Aðstaðan í Eldey frábær fyrir frumkvöðla

Sigurður tekur í sama streng og aðrir frumkvöðlar sem hafa hafið sína starfsemi á Ásbrú, enda aðstaðan í Frumkvöðlasetrinu Eldey mjög góð fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki í alla staði.

“Hér er hægt að leigja skrifstofurými af ýmsum stærðum og gerðum, auk þess er á staðnum eldhúsaðstaða, kaffivél, fundarherbergi og fyrirlestrarrými,” sagði Sigurður í spjalli við Local Suðurnes.

Fyrir stuttu flutti fyrirtækið í stærra skrifstofuhúsnæði í Eldey og bættist við Mekano teymið Guðmundur Arnar Grétarson sem einnig er tæknifræðingur. Þeir félagar hafa komið sér vel fyrir á nýju skrifstofunni og vinna nú dag og nótt við allt sem tengist rekstri félagsins.

Stefnir á að koma vörunni á markað í október

Um 27 frumgerðir hafa nú verið smíðaðar og eins og gengur og gerist koma yfirleitt einhver vandamál sem þarf að sinna eftir hverja útgáfu.

“Nú erum við mjög nálægt að ná að leysa öll þessi vandamál og stefnum á að vera með kláraða frumhönnun 1. október næstkomandi. Eftir að hönnun og tæknileg útfærsla hefur verið kláruð taka við strangar öryggis og gæðaprófanir í einhverjar vikur.

Ef einingarnar standast allar þær prófanir verður sett upp netverslun þar sem hægt verður að forkaupa fyrstu einingarnar sem eru 100% íslensk hönnun og framleiðsla,” sagði Sigurður.

kynning mekano

Töluverður tími fer í að kynna hugmyndina og fyrirtækið – Hér heldur Sigurður kynningu í tengslum við Gulleggið, fyrir 14 stjórnendur íslenskra fyrirtækja

Styrkur frá Sóknaráætlun Suðurnesja tryggir reksturinn

Fyrir stuttu hlaut Mekano styrk frá Sóknaráætlun Suðurnesja og Tækniþróunarsjóði sem gerir það að verkum að þetta verkefni getur haldið áfram. Sóknaráætlunin hefur það markmið að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun á Suðurnesjum, með því að treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni svæðisins en alls hlutu 35 verkefni styrki frá Sóknaráætlun Suðurnesja í ár.

“Ef ekki væri fyrir þennan styrk og aðra væri það ekki hægt, því einhvernveginn og á einhverju þurfa frumkvöðlar að lifa. Þessi styrkur á eftir að nýtast okkur í eitt ár sem launagreiðslur fyrir 2-3 starfsmenn,” Sagði Sigurður að lokum.