Nýjast á Local Suðurnes

Sprotafyrirtæki á Ásbrú hópfjármagnar byltingarkennda vöru – Myndband!

Sprotafyrirtækið Mekano, á Ásbrú, er að við það að hefja framleiðslu á byltingarkenndum samsettum einingafjöltengjum. Starfsfólk fyrirtækisins hefur unnið að hönnun vörunnar undanfarin ár og hlotið fjölmörg verðlaun og styrki. Forsvarsmenn fyrirtækisins leita nú til almennings við lokahnykk fjármögnunar á hópfjármögnunarvefnum Karolinafund.

Markmiðið með hönnun fjöltengjanna gengur út á endurhönnun og umbætur á núverandi fjöltengjum eins og þau eru í dag og aukið öryggi, auk þess að gefa fólki kost á að hafa áhrif á útlit og tengimöguleika, þannig geta allir sérsmíðað sitt eigið fjöltengi miðað við eigin þarfir og aðstæður, sem aftur býður upp á ómetanlegan og mikinn fjölbreytileika. Nær ótakmarkaðir möguleikar eru á samsetningu Mekano fjöltengisins sem ætti að henta öllum.

fjoltengi mekano2

Mekano hefur hlotið fjölda verðlauna og styrkja, árið 2015 tók fyrirtækið þátt í einni stærstu frumkvöðlakeppni landsins, Gullegginu og lenti þar í 2. sæti. Einnig fengust aukaverðlaun frá Advel lögmannsstofu, KPMG og Íslandsstofu. Sama ár hlaut Mekano titilinn Besti Nýliðinn í sprotafyrirtækjum á Íslandi á vegum Nordic Startup Awards ásamt því að fá styrk frá bæði Tækniþróunarsjóði og Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Árið 2016 fékk fyrirtækið svo til liðs við sig samstarfsaðila frá Bandaríkjunum sem aðstoðar við framleiðslu og dreifingu vörurnar.

“Hugmyndin að samansettu fjöltengi varð til í ársbyrjun 2015 og voru fyrstu skissur gerðar þá. Mekano var síðan formlega stofnað 11. febrúar 2015. Fyrstu einingarnar hafa verið gerðar framleiðsluhæfar á stórum skala og er framleiðsla að hefjast.” Segir í lýsingu á verkefninu á vef Karolinafund, en þar er hægt að aðstoða fyrirtækið við fjármögnun.

Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndband sem fyrirtækið lét vinna í tengslum við hópfjármögnunina og sýnir vel hvaða möguleika þessi byltingarkenndu fjöltengi bjóða upp á. Fjölmargir styrktarpakkar eru í boði á Karolinafund fyrir þá sem áhuga hafa á að styðja við bakið á frumkvöðlunum í Mekano.