Nýjast á Local Suðurnes

Haraldur Freyr og Magnúsar hætta hjá Keflavík

Þrír af sterkustu og reyndustu leikmönnum Keflvíkinga í knattspyrnu munu ekki leika með liðinu á næsta keppnistímabili en það eru Haraldur Freyr Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson og Magnús Þórir Matthíasson. Samtals eiga þessir þremenningar að baki 39 leiktímabil og tæplega 900 leiki með meistaraflokki Keflavíkur.

Haraldur Freyr hefur verið fyrirliði Keflavíkur undanfarin ár. Hann er uppalinn hjá Keflavík, lék með yngri flokkum félagsins og lék fyrst með meistaraflokki árið 1999. Haraldur hefur leikið 200 deildarleiki með Keflavík og skorað í þeim átta mörk. Auk þess hefur hann leikið 27 bikarleiki og skorað fimm mörk og 78 leiki í deildarbikarnum og þar eru mörkin þrjú. Hann lék í Noregi og Kýpur á árunum 2005 til 2009 og aftur í Noregi seinni hluta sumarsins 2011. Haraldur lék með yngri landsliðum Íslands og á að baki tvo leiki með A-landsliðinu. Þess má geta að Haraldur Freyr var valinn leikmaður ársins hjá Keflavík árin 2002, 2010 og 2014 og hann varð bikarmeistari með liðinu árið 2004.

Magnús Sverrir er líka uppalinn hjá Keflavík og lék fyrst með meistaraflokki félagsins árið 1999. Hann hefur alls leikið 17 tímabil með liðinu en Magnús lék auk þess eitt tímabil með Grindavík. Hann hefur leikið 244 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim 46 mörk, 34 bikarleiki þar sem Magnús hefur skorað tólf mörk og sjö leiki í Evrópukeppnum þar sem eitt mark fylgir með. Leikirnir í deildarbikarnum eru 93 en þar er Magnús leikjahæsti leikmaður Keflavíkur og mörkin í keppninni eru 29. Hann hefur leikið 213 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og er þar þriðji leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Magnús Sverrir lék með öllum yngri landsliðum Íslands og ekki má gleyma því að pilturinn afrekaði það að skora fyrsta mark Íslands í Futsal á sínum tíma. Hann varð bikarmeistari með Keflavík árin 2004 og 2006.

Magnús Þórir hóf sinn feril á heimaslóðum í Garðinum en lék svo með yngri flokkum Keflavíkur og lék fyrst með meistaraflokki árið 2007. Hann lék með Fylki árið 2012 en sneri síðan aftur á heimaslóðir. Magnús hóf feril sinn í framlínunni en færði sig svo aftar á völlinn og var öflugur í stöðu vinstri bakvarðar en var svo kominn aftur framar á völlinn í sumar. Magnús hefur leikið 129 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim 18 mörk. Hann hefur einnig leikið 13 bikarleiki og skorað fjögur mörk auk eins leiks í Evrópukeppni og 33 leiki í deildarbikarnum þar sem mörkin eru 12. Magnús Þórir á að baki leiki með U-19 ára landsliði Íslands.

Í tilkynningu frá Knattspyrnudeild er félögunum þakkað kærlega fyrir þeirra framlag til liðsins og knattspyrnunnar í Keflavík.