Nýjast á Local Suðurnes

Guðbergur um gagnrýni: “Röfl sem hefur þó skilað okkur tveimur hringtorgum”

Mynd: Facebook - Ásmundur Friðriksson

Aðgerðahópur Stopp hingað og ekki lengra mun að hittast á morgun og ákveða næstu skref í baráttunni fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar, en í pistili sem Margeir Vilhjálmsson skrifaði um slæmar aðstæður á Reykjanesbraut í gær var hörð gagnrýni á aðgerðarleysi við framkvæmdir á þessum umferðarmesta þjóðvegi landsins.

Pistilinn hefur vakið mikla athygli, en í honum hvetur Margeir meðal annars Stopp hópinn til auka þrýsting á stjórnvöld með því að minna fulltrúa allra flokka á Alþingi á kosningaloforð frá árinu 2016, þar sem lofað var úrbótum.

Guðbergur Reynisson, einn forsvarsmanna hópsins, segir að til standi að ákveða næstu skref og bendir á að ýmislegt hafi áunnist í baráttunni fyrir auknu umferðaröryggi á Reykjanesbraut og að “röflið” hafi meðal annars orðið til þess að framkvæmdir séu hafnar við gerð tveggja hringtorga, auk þess sem tvöföldun brautarinnar sé komin á samgönguáætlun.

“Röfl sem hefur þó skilað okkur tveimur hringtorgum á hættulegasta vegakafla landsins. Röfl sem hefur skilað okkur því að tvöföldun Reykjanesbrautar er komin á Samgönguáætlun.” Segir Guðbergur í pistli á Facebook-síðu Stopp hópsins.

Þá hvetur Guðbergur þá sem áhuga hafa á að taka þátt í starfsemi hópsins að hafa samband við sig, en það má gera með því að senda skilaboð á Facebook-síðunni.