Nýjast á Local Suðurnes

Vill ákvæði um eltihrella – Lögreglan á Suðurnesjum í fararbroddi í heimilisofbeldismálum

Ólafur Helgi Kjartanson, lögreglustjóri á Suðurnesjum telur mikilvægt að sett verði sérstakt ákvæði um umsáturseinelti – eða „stalking“ eins og það heitir ensku. Þetta kemur fram í umsögn hans við frumvarp Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, þar sem heimilisofbeldi verður lögfest sem sérstakt ákvæði í hegningarlögum. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Í umsögn sinni segir Ólafur Helgi meðal annars að koma þurfi skýrt fram í lögum að réttur þess sem verði fyrir barðinu á eltihrelli verði talinn ríkari en réttur þess sem því beitir. Það séu grundvallar mannréttindi einstaklings að þurfa ekki að sæta áreiti frá öðrum einstaklingi. Hann telur að lögreglu þurfi að vera heimilt að skerða réttindi þess sem beitir umsáturseinelti til að tryggja friðhelgi þess sem fyrir því verður.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur verið í fararbroddi þegar kemur að málum sem varða heimilisofbeldi og hefur undanfarin ár tekið þátt í tilraunaverkefni í meðferð heimilisofbeldismála sem hlaut nafnið „Að halda glugganum opnum“ og er samstarfsverkefni lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndaryfirvalda á Suðurnesjum.

Verkefnið hefur vakið mikla athygli og hafa starfsaðferðirnar sem þróaðar voru á Suðurnesjum verið teknar upp í fjölda sveitarfélaga hérlendis auk þess sem nokkur sveitarfélög erlendis hafa tekið aðferðirnar upp. Þá fékk verkefnið viðurkenningu vegna nýsköpunar í opinberum rekstri árið 2014.