Nýjast á Local Suðurnes

Gefa matvörur fyrir hálfa milljón á mánuði

Suðurnesjafyrirtækið Ice-Group hef­ur ákveðið að gefa Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum mat­vör­ur að verðmæti 500.000 kr. á mánuði í októ­ber, nóv­em­ber og des­em­ber, sam­tals 1.500.000 kr. Þetta er gert í sam­vinnu við Krón­una sem gef­ur sér­stak­an af­slátt.

Frá þessu er greint á vef mbl.is, en þar segir Anna Val­dís Jóns­dótt­ir, vara­formaður FÍ, að forsvarsmaður fyrirtækisins hafi undanfarin fjögur ár styrkt starf Fjölskylduhjálpar með rausnarlegum hætti. Það hafi Sig­urður Magnús­son, fisksali í Reykja­nes­bæ, einnig gert, hann hefur fært Fjöl­skyldu­hjálp­inni í Reykja­nes­bæ fisk­meti í hverri viku til út­hlut­un­ar. Auk þess gaf hann 40 gjafa­bréf til kaupa á fisk­meti sem skjól­stæðing­ar nýttu sér. Fjöl­skyldu­hjálp­in á Suður­nesj­um höfðar nú til annarra fyr­ir­tækja á svæðinu að láta einnig gott af sér leiða.