Nýjast á Local Suðurnes

Tveir Keflvíkingar með verðlaun á Evrópumóti í taekwondo

Það er heldur betur uppskera hjá taekwondo deild Keflavíkur en á innan við viku þá höfðu tveir Keflvíkingar fengið verðlaun á Evrópumóti í taekwondo. Bartosz Wiktorowicz og Ágúst Kristinn Eðvarðsson fengu báðir bronsverðlaun í viðkomandi keppnisgrein.

Bartosz keppti í hópapoomsae ásamt tveimur öðrum drengum frá taekwondo deild Ármanns. Hópapoomsae er grein þar sem iðkendur þurfa að samhæfa bardagahreyfingar innan liðsins og framkvæma með sem mestri nákvæmni, hraða, kraft, liðleika og takt. Þar tókst drengjunum þremur að verða í 3. sæti og fengu bronsverðlaun fyrir.

Það voru fyrstu verðlaun hjá Íslending á Evrópumóti í tækni en mótið var haldið í Serbíu. Á sama móti varð bartosz í  5-8.  sæti í einstaklingstækni og Ástrós Brynjarsdóttir varð í 9. sæti í einstaklingstækni. Bartosz var valinn keppandi ársins hjá taekwondo deild Keflavíkur í vor eftir frábært ár og hann stóðst einnig svartbeltispróf í byrjun sumars.