Nýjast á Local Suðurnes

Fjöldi sveitarfélaga tekið upp verklagið frá Suðurnesjum í meðferð heimilisofbeldismála

Tilraunaverkefni í meðferð heimilisofbeldismála sem hlaut nafnið „Að halda glugganum opnum“ og var samstarfsverkefni lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndaryfirvalda á Suðurnesjum lauk formlega í janúarlok 2014, það var þó samdóma álit þeirra sem að verkefninu stóðu að góður árangur hefði náðst og tilraunin hefði tekist mjög vel.  Ákveðið var að halda samstarfinu áfram og fylgja því verklagi sem mótast hafði á tilraunaárinu við meðferð heimilisofbeldismála.

Sú athygli sem meðferð heimilisofbeldismála á Suðurnesjum fékk í samfélaginu varð til þess að kallað var eftir kynningu á þessari nýju nálgun. Fulltrúar embættis Lögreglustjórans á Suðurnesjum stóðu að kynningum í Lögregluskóla ríkisins, fyrir starfsfólk velferðarráðuneytisins, hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, þar sem verklagið hefur nýlega verið tekið upp.

lögregla

Lögreglan á Suðurnesjum leggur mikla áherslu á að vinna vel með börnum og eru tíðir gestir á leikskólum svæðisins

Verkefnið hefur vakið athygli erlendis

Verkefnið hefur verið kynnt á ráðstefnum í Madrid á Spáni og Tempere í Finnlandi. Embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum hefur einnig fengið heimsóknir hópa frá Noregi og Póllandi.

Yfirstjórn embættisins fór einnig í náms- og kynnisferð til lögreglunnar á StórManchester svæðinu í Bretlandi (Greater Manchester Police) í tengslum við verkefnið og fékk meðal annars kynningu á meðferð á heimilisofbeldismálum þar, og þá meðal annars MARAC áhættumatskerfinu en MARAC stendur fyrir þverfaglegan samráðshóp við áhættumat (Multi-Agency Risk Assessment Conference) og byggir á nánu samstarfi lögreglu, félagsmálayfirvalda, barnaverndar, heilbrigðisþjónustu og eftir atvikum fleiri stofnana (t.d. skólayfirvalda, skilorðseftirlits, fangelsismálayfirvalda og félagslega húsnæðiskerfisins).

„Miðað við þá almennu umfjöllun og áhuga sem breytt meðferð heimilisofbeldismála hefur notið er full ástæða til mikillar bjartsýni um framhaldið og ljóst að við höfum lagt góðum málstað lið.“ Segir um þátttöku lögreglunnar í verkefninu „Að halda glugganum opnum“ í ársskýrslu Lögreglustjórans á Suðurnesum sem birt var fyrir skömmu.

Lögreglan fékk viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberum rekstri

Í upphafi árs 2014 fékk verkefni embættis Lögreglustjórans á Suðurnesjum um heimilisofbeldi „Að halda glugganum opnum“ viðurkenningu vegna nýsköpunar í opinberum rekstri.

 Í umsögn valnefndar þar sem gerð var ítarleg grein fyrir verkefninu sagði meðal annars: „Að mati valnefndar er hér um að ræða nýmæli er hefur það að markmiði samhæfa starf tveggja ólíkra kerfa samfélagsins, löggæslunnar og félagslega kerfisins á svæðinu, til að takast á við tiltekið þjóðfélagsvandamál, sem er heimilisofbeldi. Valnefnd telur að í verkefninu felist ný frumleg hugsun, þar sem horft er á vandann með heildrænum hætti, brotist er út úr stofnanaramma og málin leyst með í samvinnu aðila.“

 

woman-228177_1280

Fjöldi sveitarfélaga hefur tekið upp verklagið frá Suðurnesjum þar sem sveitarfélögin og lögregluembættin vinna saman.

Fulltrúar lögreglu og barnaverndar sitja í samstarfsteymi Velferðarráðuneytisins

María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnverndar Reykjanesbæjar situr í samstarfsteymi vegna heimilisofbeldis á vegum Velferðarráðuneytisins sem hefur haldið, ásamt Jafnréttisstofu, námskeið fyrir fagaðila er varðar forvarnir og aðgerðir gegn heimilisofbeldi víðs vegar um land.

Að sögn Maríu Gunnarsdóttur forstöðumanns barnaverndar Reykjanesbæjar hafa hún og Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurnesjum kynnt verklagið á Suðurnesjum á þessum námskeiðum út frá sjónarhóli lögreglunnar og Velferðarsviðs. Auk þess sem verklagið hefur einnig verið kynnt í Lögregluskóla Ríkisins og fyrir embættismönnum frá Svíþjóð.

María og Jóhannes verða með fyrirlestur um verklagið á Suðurnesjum er varðar heimilisofbeldi á Evrópskri ráðstefnu um heimilisofbeldi í Belfast í byrjun september.

Eins og fyrr segir hafa fleiri sveitarfélög tekið upp verklagið frá Suðurnesjum þar sem sveitarfélögin og lögregluembættin vinna saman og má þar nefna:

Akranes i nóvember 2013, Reykjavík 12 janúar 2015, Akureyri 25. febrúar 2015 og Hafnarfjörður/Kópavogur/Garðabær/ Mosfellsbær skrifuðu undir samstarfssamning þann 15. maí 2015.