Nýjast á Local Suðurnes

Stálu ilmvatni og vodkaflöskum að verðmæti yfir 100.000 krónur

Kona sem lét greipar sópa í tveimur verslunum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni reyndist hafa í fórum sínum níu ilmvatnsglös að verðmæti samtals rúmlega 82.000 kr.sem hún hafði tekið ófrjálsri hendi úr verslununum. Hún var handtekin og færð á lögreglustöð þar sem hún játaði brot sín. Hún framvísaði jafnframt varningnum sem hún hafði hnuplað.

Þá var tilkynnt um þjófnað úr vínbúð í umdæminu. Þar inn hafði komið karlmaður og haft á brott með sér vodkaflösku að verðmæti 5.600 kr. án þess að greiða fyrir hana. Nokkru síðar kom maður inn í verslunina og hnuplaði þá tveimur vodkaflöskum. Grunur leikur á að sami maðurinn hafði verið á ferðinni í bæði skiptin.