Nýjast á Local Suðurnes

Ragga nagli með fyrirlestur og námskeið í Grindavík

Heilsubrautin alla ævi: Verkfæri úr kistu sálfræðinnar til að gera heilsu að lífsstíl. Þetta er yfirskrift fyrirlesturs á vegum Röggu nagla. Hana ættu allir að þekkja enda er á ferðinni afar flott kona með hausinn í lagi. Hún er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari með sérsvið í vandamálum tengdum ofáti, lotuofátsröskun og ofþyngd.
Svart-hvítar hugsanir tengdar mataræði og vítahringur sektarkenndar, ofáts, stífrar megrunar og óánægju með ytra útlit.

Fyrirlesturinn verður haldinn þriðjudaginn 16. febrúar kl. 18:00 í Gjánni í Grindavík, fyrirlesturinn er í boði bókasafns Grindavíkur. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

 

Þá verður Ragga nagli með matreiðslunámskeið í Grunnskóla Grindavíkur mánudaginn 15. febrúar frá kl. 17-21, þar verður allskonar fyrir átvögl í hollustugúmmulaði, bæði til að friðþægja sykurpúkann og gleðiefni fyrir söltu tunguna, segir í tilkynningu á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Vonandi fá því allir innblástur til að gera heilsulífið að dansi á rósum.

Skráning fer fram í gegnum netfangið bokasafn@grindavik.is og verð á námskeiðið er 16.000 kr.
Greiðsla þarf að hafa borist fyrir 12. febrúar og verða upplýsingar um reikningsnúmer gefnar upp við skráningu.