Nýjast á Local Suðurnes

Leita að rekstraraðila fyrir Aðventusvellið

Reykjanesbær opnaði í fyrra Aðventusvellið sem er hluti af Aðventugarðinum. Aðventusvellið er 200m2 umhverfisvænt skautasvell staðsett í skrúðgarðinum við Ráðhústorg sem áætlað er að verði opið frá miðjum nóvember og fram yfir áramót.

Leitað er að metnaðarfullum og framsæknum aðila, fyrirtæki og/eða félagsamtökum til að taka að sér rekstur Aðventusvellsins frá 15. nóvember 2022 til 15. janúar 2023 í samstarfi við Reykjanesbæ. Lagt er upp með að svellið verði opið fimmtudag til sunnudags með möguleika á bókunum fyrir skólahópa og/eða aðra hópa á virkum dögum.

Rekstraraðili ber ábyrgð á daglegum rekstri Aðventusvellsins. Hann annast rekstur og mönnun á svellinu ásamt því að sjá um bókanir, skautaleigu og hefur umsjón með daglegu viðhaldi, umhirðu og eftirliti svellsins.

Leitað er að ábyrgum aðila sem hefur brennandi áhuga á verkefninu og hugmyndir að útfærslu þess. Rekstraraðili hefur tekjur af aðgangseyri og skautaleigu auk þess sem möguleiki er á að selja auglýsingar á umgjörð/girðingu svellsins. Rekstraraðili hefur aðgang að vefsíðunni adventusvellid.is

Umsóknarfrestur er til kl. 12:00 þann 31. október 2022 og skal umsóknum skilað í tölvupósti, merkt “Rekstur Aðventusvells” á netfangið adventugardur@reykjanesbaer.is Reykjanesbær áskilur sér rétt til að hefja viðræður við þá aðila sem sækja um eða hafna öllum umsóknum.

Umsókn skal fylgja:

  • Nafn og kennitala rekstraraðila
  • Upplýsingar um fyrri reynslu af rekstri
  • Hugmyndir um fyrirkomulag og framkvæmd á rekstri Aðventusvellsins.