Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanes einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi

Reykjanes hefur verið valinn einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi árið 2017.
Tilkynnt var um viðurkenninguna í dag, 27. september, á alþjóðlegum degi ferðaþjónustunnar. Dagurinn í ár sem og árið 2017 er helgað sjálfbærri ferðaþjónustu. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar.

Það eru alþjóðlegu samtökin Green Destinations sem standa að valinu líkt og undanfarin ár en að baki þeim stendur hópur sérfræðinga, fyrirtækja og stofnana um allan heim. Markmið samtakanna með útnefningu þessara 100 staða er að vekja athygli á árangursríkum aðferðum við stjórnun áfangastaða. Um 2.000 áfangastaðir eru í gagnagrunni samtakanna og eru metnir fjölmargir og ólíkir þættir, s.s. stjórnun áfangastaðar, náttúrufar, meðferð dýra, landslag, umhverfismál, menning, hefðir, félagsleg velferð, viðskiptaumhverfi og gestrisni.

Reykjanes er eini íslenski áfangastaðurinn sem kemst á lista Green Destination í ár en meðal áfangastaða á listanum í ár eru Los Angeles, Niagra fossar, Asóreyjar, Höfðaborg, Svalbarði og Ljubljana.