Meintir sterar og meint kannabisefni gert upptækt eftir húsleit
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gærkvöld ökumann vegna gruns um að hann æki undir áhrifum fíkniefna. Megn kannabislykt barst úr bifreiðinni þegar lögreglumenn ræddu við manninn og viðurkenndi hann neyslu kannabisefna. Hann heimilaði leit í bifreið sinni og þar fundust meint kannabisefni, meintir sterar og lyf sem maðurinn gat ekki gert grein fyrir. Við leit á heimili hans, að fenginni heimild, fundust einnig meintir sterar.
Þá kærði lögregla nokkra ökumenn fyrir of hraðan akstur í vikunni. Einn þeirra mældist á 122 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund. Annar ók á 112 km. hraða þar sem hámarkshraði er 70 km. á klukkustund.