Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarfulltrúar telja sig ekki hafa gert neitt rangt í Paddys málinu

Málefni skemmtistaðarins Paddy´s sem stendur við Hafnargötu í Reykjanesbæ hafa verið töluvert til umræðu undanfarna daga. Núverandi rekstraraðilar þessa vinsælasta skemmtistaðar Suðurnesja hófu rekstur í húsnæðinu í febrúar árið 2015, eftir að hafa gengið frá leigusamningi á húsnæðinu við eiganda þess, Reykjanesbæ og á sama tíma keypt innbú staðarins af þrotabúi fyrri eiganda.

Fyrrverandi eigandi skemmtistaðarins, Ármann Ólafur Helgason, birti grein á vef stærsta héraðsfréttamiðils landsins, vf.is, þar sem hann fór yfir málin frá sínu sjónarhorni, en hann telur sig, samkvæmt greininni, hafa verið svikinn af stjórnendum Reykjanesbæjar varðandi málefni staðarins. Hann segir farir sínar heldur ekki sléttar í samskiptum sínum við staðgengil bæjarstjóra á þeim tíma, Hjört Zakaríasson.

“Eftir sveitarstjórnarkosningar í maí 2014 komst til valda ný bæjarstjórn í Reykjanesbæ og tók bæjarritari [innsk. blm. Hjörtur Zakaríasson] þá tímabundið við störfum bæjarstjóra. Þann sama dag fékk ég útburðarbréf frá honum þar sem mér voru gefnir 10 dagar til að greiða upp skuld mína við bæinn eða yfirgefa staðinn ella.” Segir Ármann í grein sinni.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Ármann: “Þegar ég óskaði aðstoðar bæjarins við að sækja eigur mínar neitaði bæjarritari og sagði að við það yrði búnaðurinn verðlaus. Þarna fór með öðrum orðum fram eignaupptaka á búnaði og innréttingum í minni eigu, ekki eingöngu með velþóknun bæjaryfirvalda heldur beinlínis fyrir tilstilli þessara sömu bæjaryfirvalda. Allt út af skuld sem ég hafði boðist til að greiða upp.”

Bæjarfulltrúar telja sig ekki hafa gert neitt rangt í þessu máli og aðdraganda þess, Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi Beinnar leiðar segist ekki hafa haft undir höndum nein trúnaðargögn varðandi söluna á staðnum eins og haldið hafi verið fram á samskiptamiðlum. Hann hafi verið á móti áframhaldandi starfsemi staðarins, þegar það lá fyrir að reksturinn myndi stöðvast, en farið eftir samþykktum meirihluta bæjarráðs og bæjarstjórnar, þegar þær lágu fyrir.

“Því hefur verið haldið fram að ég hafi haft trúnaðargögn í þessu máli, slík gögn hef ég ekki. Átti hins vegar í samskiptum við fullt af fólki í aðdraganda þessarar sölu.” Sagði Guðbrandur í samtali við Local Suðurnes.

“Ég var á móti því að þessi starfsemi yrði áfram á þessum stað, en þetta var var niðurstaða meirihlutans og ég sætti mig við hana.” Sagði Guðbrandur.

Aðrir bæjarfulltrúar sem Local Suðurnes hafði samband við svöruðu á sömu nótum og Guðbrandur og sögðu ekkert óeðlilegt hafa átt sér stað í þessu máli, staða fyrri eiganda hafi verið orðin slæm og skuldir fyrirtækisins við Reykjanesbæ orðnar miklar. Þá kom fram í máli þeirra sem rætt var við að svo virðist sem þáverandi eigandi hafi gleymt að minnast á þá staðreynd í grein sinni á vef vf.is að staðurinn hafi verið kominn í gjaldþrotameðferð og að það hafi ekki verið að beiðni Reykjanesbæjar.