Nýjast á Local Suðurnes

Tóku of langan tíma í að kóða vefsíðu – Dæmdir til að endurgreiða sjö milljónir króna

Veffyrirtækið Kosmos og Kaos ehf. var á dögunum dæmt til að greiða Eirberg ehf. 6.854.431 krónu með dráttarvöxtum auk 2.480.000 króna í málskostnað vegna dráttar á vinnu við vefsíðugerð. Veffyrirtækið hóf vinnu við vef Eirbergs vorið 2014 og átti vefurinn að vera klár til notkunnar þá um haustið samkvæmt verksamningi. Eirberg höfðaði mál þremur árum síðar þar sem vefurinn var enn ónothæfur.

Dómkvaddur matsmaður var kvaddur til og var tók dómurinn tillit til niðurstöðu matsgerðar, sem segir að verkinu hafi ekki verið lokið með fullnægjandi hætti. Taldi matsmaður að miðað við upphaflega áætlun um gerð vefsins og ásættanlegt ástand á verslunarvef í fullum rekstri hafi stefndi, við áætluð verklok, þann 31. október 2014, verið búinn að ljúka 20-30% af nauðsynlegri vinnu til að gera vefinn fullnægjandi. Tæpum tveimur árum síðar var búið að ljúka 45-55% af nauðsynlegri vinnu til að gera vefinn fullnægjandi, að mati matsmanns.

Taldi dómurinn, sem meðal annars var skipaður tölvunarfræðingi, sannað að umsamið verk við hönnun og gerð vefsins www.eirberg.is hafði ekki þá eiginleika sem því var ætlað og ætla mátti að aðilar hafi haft í huga við samningsgerðina, eða almennt mátti ætla og taldist verkið því gallað að mati dómara.

Dóminn í heild sinni má sjá hér.