Nýjast á Local Suðurnes

Segir laun mun lægri hjá USi en í sambærilegum störfum – “Vil biðja þjóðina afsökunar”

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi stjórnendur United Silicon fyrir að hafa enga stjórn á mengun sem berst frá verksmiðjunni við upphaf þingfundar í dag. Ásmundur sagði fyrirtækið einnig greiða laun langt undir því sem greitt er fyrir sambærilega vinnu í álverum.

„Ég sem þingmaður vil biðja þjóðina afsökunar á því að hafa greitt götu fyrirtækis sem fengið hefur hundruð milljóna króna stuðning skattgreiðenda að byggja upp rekstur en greiðir starfsmönnum sínum laun sem eru grundvölluð á taxta sem er undir tekjuviðmiðum í landinu,“ sagði Ásmundur.

Ásmundur sagði starfsfólk United Silicon fá 450 þúsund krónur á mánuði fyrir störf sem myndu skila því 600 til 700 þúsund króna tekjum á mánuði í álverunum.