Nýjast á Local Suðurnes

Einar Orri og Kristrún Ýr leikmenn ársins hjá Keflavík

Lokahóf Knattspyrnudeildar Keflavíkur var haldið í félagsheimilinu við Sunnubraut laugardaginn 3. október.  Þar voru veittar viðurkenningar fyrir frammistöðu sumarsins hjá meistaraflokki og 2. flokki karla og kvenna.  Auk þess fengu aðstandendur liðanna þakklætisvott fyrir sín störf í sumar.  Geir Þorsteinsson formaður KSÍ var gestur á hófinu og þá mætti Raggi Bjarna og tók lagið.

Einar Orri Einarsson var valinn leikmaður ársins hjá meistaraflokki karla og Sindri Kristinn Ólafsson er efnilegastur þetta árið.  Hörður Sveinsson fékk gullskóinn og Magnús Þórir Matthíasson fékk silfurskóinn.  Þeir félagar urðu markahæstu leikmenn liðsins í sumar en Hörður lék færri leiki og fékk því gullskóinn þriðja árið í röð.  Sigurbergur Elisson fékk verðlaun fyrir mark ársins en það var síðasta markið í heimaleiknum gegn Leikni.  Það var lokamark sumarins og síðasta mark Keflavíkur í Pepsi-deildinni í bili.  Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir fjölda leikja fyrir Keflavík á Íslandsmótinu og að þessu sinni fékk Magnús Þórir Mathíasson viðurkenningu fyrir 100 leiki og Sigurbergur Elisson fyrir 50 leiki.

Hjá meistaraflokki kvenna var Kristrún Ýr Holm besti leikmaðurinn, Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir var valin efnilegust og Ólöf Stefánsdóttir besti félaginn.  Margrét Hulda Þorsteinsdóttir fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaður liðsins í sumar og Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir fékk silfurskóinn.  Þá fékk Arndís Snjólaug viðurkenningu fyrir 50 leiki á Íslandsmóti.