Nýjast á Local Suðurnes

Silja Dögg Gunnarsdóttir: “Breytingin byrjar hjá okkur sjálfum”

Núverandi þingmenn Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi.

Í til­lög­u sem þingflokkur Framsóknarflokks samþykkti í dag legg­ur Sig­mund­ur Davíð Gunnlaugsson til að vara­formaður flokks­ins, Sig­urður Ingi Jóhannsson taki við embætti for­sæt­is­ráðherra en að Sig­mund­ur Davíð muni áfram sinna embætti for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins og sitja sem þingmaður.

Lítið hefur heyrst í þingmönnum Suðurnesja um framvindu mála en Silja Dögg Gunnarsdóttir tjáði sig þó á Facebook-síðu sinni nú undir kvöld, þar sem hún gagnrýnir fréttaflutning og myndbirtingar vefmiðilsins Vísis af tilvonandi forsætisráðherra.

“Maður er kannski viðkvæmari en ella eftir erfiða daga en ég verð samt að segja að mér finnst nýjasta frétt Vísis af Sigurði Inga Jóhannssyni, þeim sómamanni, fáránleg og endurspegla þá illkvittni sem víðar er í gangi. Fyrirsögnin er “Viðbrögð þjóðarinnar við því að Sigurður Ingi verði mögulega forsætisráðherra”. (ég hef ekki einu sinni geð í mér að deila henni). Síðan eru ljótar skopmyndir af Sigurði þar sem útlit hans er afbakað og vitnað í nokkur illkvittin tíst. Endurspegla þessir fimm tístarar skoðun þjóðarinnar? Ég held ekki. Og hefur Illugi Jökulsson ekkert annað að gera en að mótmæla og tjá sig um allt og ekkert? Í alvöru við hljótum að geta gert betur en þetta. Breytingin byrjar hjá okkur sjálfum. Hver og einn ætti nú að líta í eigin barm.” Segir í Facebook færslu Silju Daggar.