Nýjast á Local Suðurnes

Thorsil fær frest á greiðslu gatnagerðargjalda vegna tafa á deiliskipulagi

800 milljónir í eftirgjöf af gjöldum frá ríki og bæ

Atvinnu- og hafnaráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt beiðni Thorsil um frest á greiðslu á 30% af gatnagerðargjöldum til 30. september næstkomandi, en fyrirtækið stefnir sem kunnugt er á að reisa kísilmálmverksmiðju í Helguvík með framleiðslugetu uppá rúm 54 þúsund tonn af kísilmálmi, kísildufti og gjalli.

Aðspurður um ástæður þess að Thorsil óskaði eftir fresti sagði Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri Reykjaneshafna að tafir á deiliskipulagi væru aðalástæða þess að fresturinn væri veittur – Spurður um upphæð gjalddagans bar Halldór við trúnaði með vísan í stjórnsýslulög og hann gæti því ekki tjáð sig um fjárhagsmálefni fyrirtækja.

Samkvæmt gildandi verðskrá Reykjaneshafna eru lóðagjöld í Helguvík tæplega sexþúsund krónur á fermeter fyrir lóðir undir atvinnustarfsemi og því ljóst að um töluverða upphæð er að ræða þrátt fyrir að fyrirtækið fái 30% afslátt af áðurnefndum gjöldum.

kisilmalm thorslil

Teikning af fyrirhugaðri verksmiðju Thorsil

Samningur við fyrirtækið ekki í gildi

Vísir.is hefur eftir Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar að sveitarfélagið muni halda sínu striki hvað varðar málefni Thorsils, þrátt fyrir að verksmiðjan hafi ekki starfsleyfi og sé ekki með raforku til framleiðslunnar tryggða:

„Við ætlum að klára allt sem snýr að okkur. Við vitum að verksmiðjan er ekki með starfsleyfi og raforku klára. Thorsil mun ekki gera neitt fyrr en það er tryggt. Það eru hins vegar hlutir sem við höfum ekkert um að segja og breytir engu hvað deiliskipulag okkar varðar,“ segir Kjartan Már.

Helguvík - uppbygging

Frá framkvæmdum í Helguvík

Thorsil fær 800 milljónir í eftirgjöf af gjöldum frá ríki og bæ

Fyrirtækið mun yfir samningstímann fá allt að að 800 milljónir króna í eftirgjöf af opinberum gjöldum á samningstímanum en ávinningur gæti verið tæpar 1.200 milljónir að því er kemur fram í umfjöllun Alþingis um málið frá því í september 2014 þó er tekið fram að óvíst sé með þennan ávinning en ólíklegt er talið að verkefnið hafi útgjöld í för með sér umfram tekjur.

Meginefni þessara ívilnana snýr að sköttum og opinberum gjöldum, þ.á m. verður tekjuskattshlutfall 15% í stað 20%, tryggingagjald og fasteignaskattur verða 50% lægri  og gatnagerðargjöld 30% lægri. Þá eru ýmis önnur ákvæði um undanþágur eða afnám ákvæða til hagræðis. Samningurinn við Thorsil gildir í 13 ár.