Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar spenntir fyrir næsta tímabili

"Okkar metnaður liggur í því að vera með frábæra leikmenn ," segir Gunnar Örlygsson

Það hefur vart farið framhjá áhugamönnum um íslenskan körfuknattleik að Njarðvíkingar hafa verið duglegir við að laða til sín unga og efnilega leikmenn undanfarin misseri auk þess sem samningur bandaríkjamannsins Stefan Bonneau var endurnýjaður á dögunum. Það má því búast við því að Njarðvíkingar verði til alls líklegir þegar flautað verður til leiks í Dominos-deildinni í haust.

Áhorfendur voru stórkostlegir síðasta tímabili

Local Suðurnes sló á þráðinn til Gunnars Örlygssonar, formanns körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, til að forvitnast um markmið liðsins fyrir næsta tímabil meðal annars í ljósi þess að Bonneau verður um kyrrt.

”Það sem skiptir mig miklu máli, samhliða því að liðið nái góðum árangri, er að áhorfendur skemmti sér yfir körfuboltanum. Eftir að við tilkynntum nýja leikmenn til sögunnar í vikunni, þá Bonneau, Hjalta og Sigurð Dag þá hef ég heyrt í fjölmörgum stuðningsmönnum. Njarðvíkingar eru spenntir fyrir næsta tímabili enda var síðasta tímabil eftirminnilegt, dramatískt og umfram allt ótrúlega skemmtilegt þó svo enginn titill hafi skilað sér í hús. Áhorfendur voru stórkostlegir fyrir okkur Njarðvíkinga á síðasta tímabili.” Sagði Gunnar.

Friðrik Ingi

Friðrik Ingi, annar þjafara liðsins – Mynd: Karfan.is, Skúli Sig.

Friðrik Ingi og Teitur eru engir nýgræðingar

Njarðvíkingar lentu í töluverðum vandræðum á síðasta tímabili, leikmenn hættu á miðju tímabili og skipt var um erlendan leikmann, sem virtist þó vera að skila sínu, um það hafði Gunnar þetta að segja:

” Á stundum voru efasemdir um hvert stjórn og þjálfarar voru að fara með liðið á síðast liðnu tímabili, Friðrik Ingi og Teitur eru engir nýgræðingar. Það sem einkennir þá báða, fyrir utan að vera gallharðir Njarðvíkingar og hæfir þjálfarar, er sú staðreynd að þeir eru í bransanum af hreinræktaðri ástríðu þannig að í dag er komið traust á milli liðsins og áhorfenda.” og hann bætti við: ”Stuðningsmenn vita hversu megnugt liðið er og treysta þjálfurum liðsins fullkomlega fyrir að stýra okkar sveit með réttum hætti.”

stefan-bonneau UMFN

Stefan Bonneau mun án efa laða að áhorfendur í Ljónagryfjuna en hann er dýrasti leikmaðurinn í sögu Njarðvíkur – Mynd: Karfan.is, Skúli Sig.

Stefan Bonneau er dýr en metnaðurinn liggur í því að vera með frábæra leikmenn

Stefan Bonneau er án efa einn af bestu erlendu leikmönnum sem hafa leikið körfuknattleik hér á landi auk þess að vera frábær skemmtikraftur inná vellinum en hann var með 34 stig og rúmlega 5 stoðsendingar að meðaltali í leik í deild og úrslitakeppni.

„Hann er dýr, en við hefðum aldrei tekið þetta skref öðruvísi en að vita að við ráðum við þetta. Við erum líka að tryggja okkur ákveðinn skemmtikraft með Stefan. Okkar metnaður liggur í því að vera með frábæra leikmenn og hann er hluti af þeirri sveit sem við erum að setja saman,“ sagði Gunnar, himinlifandi með að halda Bonneau áfram i herbúðum Njarðvíkinga.

„Við þekkjum það frá síðustu leiktíð að hann trekkti áhorfendur að vellinum og það eru ákveðnar tekjur sem myndast þegar fólk mætir á völlinn. Hann er líka leikmaður með þau gæði að styrktaraðilar horfa til okkar,“ Sagði Gunnar.

UMFN studningsmenn karfa

Stuðningsmenn Njarðvíkinga voru frábærir á síðasta tímabili – Mynd: Karfan.is, Skúli Sig.

Stuðningurinn verður að vera til staðar

Þegar talið berst að stuðningsmönnum Njarðvíkinga, sem vöktu mikla athygli fyrir frábæra framgöngu í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar á síðasta tímabili, hafði Gunnar þetta að segja:

„Nú erum við í Njarðvík komin með þjálfara, leikmenn og stjórn sem eru í bransanum af hreinræktaðri ástríðu -slík virðing fyrir íþróttinni smitar frá sér góða strauma út í leikmannahópinn og alvöru stemning myndast. Á endanum verður öll stúkan í brjáluðu stuði þar sem sigurvilji leikmanna smitar alla áhorfendur. Þannig vil ég ávallt upplifa stemninguna innan veggja Ljónagryfjunnar sem er að mínu mati einstakt íþróttahof þó svo smæðin sé á stundum truflandi.“

„Ég hvet Njarðvíkinga sem flesta til að skrá sig í stuðningsmannahóp Grænu Ljónanna en nýtt fyrirkomulag á Grænu Ljónunum verður kynnt síðar í sumar. Til að reka klúbb í efstu lögum efstu deildar, þá verður stuðningurinn að vera til staðar – alla leið. Öðruvísi er þetta ekki hægt – Áfram Njarðvík,“ sagði Gunnar Örlygsson formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur að lokum.

Myndir eru birtar með góðfúslegu leyfi karfan.is