Nýjast á Local Suðurnes

Bjöllukór Tónlistarskólans spilar í Carnegie Hall

Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar heldur styrktartónleika í Hljómahöllinni í kvöld til að fjármagna námsferð sem hefst 25. júní og lýkur með tónleikum í Carnigie Hall í New York 29. júní. Einnig verða haldnir tónleikar í Háteigskirkju 23. júní. Báðir tónleikarnir hefjast kl. 20:00.

Bjöllukór Tónlistarskólans var stofnaður um miðbik árs 2012 eftir að Karen Janine Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri skólans og hljómsveitastjóri, hafði fengið símtal frá Sinfóníuhljómsveit Íslands með beiðni um þátttöku í árlegum jólatónleikum hljómsveitarinnar, segir á heimasíðu Reykjanesbæjar.

Karen biðlaði til elstu nemenda skólans, sem allir voru mjög áhugasamir og tilbúnir í verkið. Skemmst er frá því að segja að kórinn hefur komið fram á öllum jólatónleikum Sinfóníunnar síðan og sífellt færst framar á sviðið.

Eftir síðustu tónleika var hins vegar mál að læra eitthvað nýtt og kynnast öðrum bjöllukórum svo Karen leitaði eftir viðburðum. Bandarísk samtök sem kalla sig „Handbell Musicians of America“ halda reglulega bjöllukóramót víðsvegar um landið, nú í Massachusetts, æskuslóðum Karenar.

Það var svo tónskáldið Julian Revie frá Yale háskóla í Connecticut sem valdi bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar úr hópi þátttökukóra á hátíðinni í Massachusetts  til að flytja verk sitt „Mass of the Divine Shepherd“ í Carnegie Hall 29. júní, ásamt sinfóníuhljómsveit, kór, barnakór og öðrum bjöllukórum.

Ljósmynd: Reykjanesbær.