Nýjast á Local Suðurnes

Reynsla í fallbaráttu kemur Njarðvíkingum vel – Spáð 10. sæti í 2. deild

Njarðvíkingar munu eiga erfitt uppdráttar í knattspyrnunni í sumar, ef eitthvað er að marka spá þjálfara og fyrirliða mótherja þeirra í annari deildinni, sem fótbolti.net hefur tekið saman. Liðinu er þó spáð áframhaldandi veru í deildinni eða 10. sæti af tólf liðum. Síðustu ár hafa einkennst af miklum sveiflum, en liðið lék til að mynda níu leiki í röð síðasta sumar, án sigurs, eftir fína byrjun á mótinu.

Í úttekt fótbolta.net kemur fram að þó leikmannahópurinn sé í yngri kantinum þá hafa leikmenn Njarðvíkur öðlast dýrmæta reynslu í fallbaráttunni undanfarin tvö tímabil, en þar hafa úrslit í lokaumferðinni skorið úr um lokaniðurstöðuna.

Njarðvíkingar leika fyrsta deildarleik sinn á laugardag þegar liðið sækir Hött heim. Fyrsti heimaleikur liðsins er svo þann 13. maí þegar liðið tekur á móti ÍR-ingum á Njarðtaksvellinum.