Nýjast á Local Suðurnes

Einn stofnenda Tjarnarverks ætlaði að græða á fasteignabraski

Nóg af fólki á biðlista og engin ástæða til að koma til móts við leigjendur

Guðmundur Örn Jóhannsson, sem steig til hliðar sem framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á sínum tíma vegna gruns um að hafa farið á svig við gjaldeyrishöftin er einn stofnenda leigufélagsins Tjarnarverks ehf. sem hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið eftir að hafa tilkynnt leigjendum sínum að til stæði að hækka leigu um tugi þúsunda króna á mánuði með tveggja daga fyrirvara.

Guðmundur sem nú er aðaleigandi og framkvæmdastjóri sjónvarpstöðvarinnar Hringbraut var skráður fyrir fjórðungshlut í leigufélaginu Tjarnarverk ehf. við stofnun þess – en hann situr þó ekki í stjórn þess.

Aðrir hluthafar eru Benedikt Guðmundsson sölustjóri Steypustöðvarinnar sem jafnframt er stjórnarformaður og stærsti einstaki hluthafinn og Guðmundur Arnar Guðmundsson sem er eins og nafni sinn Jóhannsson skráður fyrir  fjórðungs hlut.

guðmundur landsbjörg

Guðmundur Örn Jóhannsson er einn af eigendum Tjarnarverks ehf.

Ætlaði að græða á fasteignabraski

Mál Guðmundar Jóhannssonar komst í hámæli árið 2012 þegar hann steig til hliðar sem framkvæmdastjóri Landsbjargar eftir að fréttir birtust um að hann hafi stundað meint peningaþvætti og gjaldeyrisbrask.

“[…] En þetta eru fasteignaviðskipti sem er um ræða; menn voru í fasteignabraski á þessum tíma, bæði hér heima og erlendis. Þannig að þetta á rætur sínar að rekja þangað. Það ætluðu allir að græða mjög mikið.“ Sagði Guðmundur meðal annars um málið við DV.

Ætla ekki að koma til móts við leigjendur

Leigjendur sem Local Suðurnes hefur haft samband við segjast ekki hafa heyrt mikið frá talsmanni fyrirtækisins varðandi leigumál en þó hafa einhverjir fengið staðfest að félagið muni virða þá leigusamninga sem eru í gildi, það er að félagið muni ekki hækka leiguna fyrr en við lok samningstímans – En þá verði leigan hækkuð um þá upphæð sem tilkynnt var um bréflega í lok júní.

Leigjendurnir segja jafnframt að fyrirtækið muni ekki koma til móts við viðskiptavini sína með því að hækka leiguna í áföngum eða á neinn annan hátt – enda hafi þeir eftir talsmanni fyrirtækisins að það sé nóg af fólki á biðlista eftir íbúðum hjá fyrirtækinu.

Talsmaður Tjarnarverks hefur ekki svarað fyrirspurnum Local Suðurnes um málefni fyrirtækisins.

Uppfært kl. 13.38: Samkvæmt talsmanni Tjarnarverks ehf. Reyni Kristinssyni var Guðmundur Örn Jóhannsson einn af stofnendum fyrirtækisins en er ekki lengur í eigendahópi þess.