Nýjast á Local Suðurnes

Heildarskuldir Keilissamstæðunnar komnar yfir 1,5 milljarð króna

Heildarskuldir Keilissamstæðunnar voru um 1.558 milljónir króna í lok árs og jukust um 46% frá fyrra ári. Skuldir Keilis móðurfélags voru 192 milljónir króna í lok síðasta árs og jukust um 74% frá fyrra ári. Aukningin var einkum í skammtíma viðskiptaskuldum og skammtímaskuldum við lánastofnanir sem jukust um rúmlega 30 milljónir króna frá fyrra ári.

Þá hækkuðu langtímaskuldir við lánastofnanir um 20 milljónir króna milli ára. Samanlagðar skuldir flugakademíunnar voru 1.142 milljónir króna sem er aukning um 39% frá fyrra ári. Skuldaaukningin er einkum vegna aukinna viðskiptaskulda, auknum skuldum við lánastofnanir og aukningu í næsta árs afborgunum, segir í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2019.

Í ársskýrslunni kemur einnig fram að 54 milljóna króna hagnaður hafi verið af rekstri samstæðunnar á árinu fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA). Hagnaðurinn dróst saman um 39% frá fyrra ári.