Nýjast á Local Suðurnes

Þróttarar sprungu á limminu í síðari hálfleik og eru úr leik í bikarnum

Þróttarar úr Vogum eru úr leik í Coca cola bikar karla í handknattleik eftir tap gegn sterku liði Fram í dag. Þróttarar léku vel í fyrri hálfleiknum en það var sem úthaldið kláraðist í þeim síðari og var sigur Fram aldrei í hættu.

Framliðið náði þriggja marka forystu snemma í leiknum, 6-3 en þá hrökk Þróttaraliðið, með Heimi Örn Árnason fremstan í flokki, loksins í gang og jöfnuðu Þróttarar leikinn í stöðunni 7-7. Úrvalsdeildarlið Fram var svo tveimur mörkum yfir í hálfleik, 11-9.

Síðari hálfleikurinn var erfiður fyrir Þróttara sem komu boltanum einungis sex sinnum í mark Framara, en fyrsta korterið í síðari hálfleik höfðu Þróttarar einungis sett eitt mark.

Þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum var munurinn svo orðinn tíu mörk. Staðan 23-13 Fram í vil. Lokatölur í leiknum urðu svo 27-15 og Þróttarar eru úr leik í bikarnum þetta árið.