Nýjast á Local Suðurnes

Ingibjörg Salóme skipuð í stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar við HSS

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir hefur verið skipuð í stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja frá og með 15. ágúst 2017.

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir er fædd árið 1968.  Hún lauk B.S. námi í hjúkrunarfræði frá HÍ árið 1998 og MBA námi við viðskiptafræðideild HÍ árið 2009 með áherslu á stjórnun mannauðs og verkefna. Ingibjörg starfaði sem hjúkrunarfræðingur við LSH eftir útskrift en tók árið 1999 við starfi hjúkrunarfræðings hjá HSS og svo deildarstjórastöðu við sömu stofnun til 2008. Á árunum 2009-2014 var hún yfirhjúkrunarfræðingur á heilsugæslu HSS. Frá 2015 hefur Ingibjörg verið verkefnastjóri við HSS þar sem hún hefur m.a. útbúið ýmsa verkferla og viðbragðsáætlanir ásamt því að þróa þverfaglegt starf innan heilsugæslu með áherslu á teymisvinnu hjúkrunarfræðinga og lækna. Þá hefur Ingibjörg setið í öryggisnefnd HSS þar sem hún útbýr áætlun um öryggi og heilbrigði starfsmanna.

Ingibjörg sat í stjórn Samvinnu, starfsendurhæfingu á Suðurnesjum 2013-2014 og var áheyrnarfulltrúi í Almannavarnarnefnd Suðurnesja 2012-2014. Hún bar ábyrgð á Viðbragðsáætlun HSS 2010-2014 og er starfandi gjaldkeri í stjórn Fagdeildar heilsugæsluhjúkrunar, frá árinu 2015.

Ingibjörg hefur afar góðan bakgrunn á sviði menntunar og starfsreynslu fyrir starfið.  Ingibjörg hefur framúrskarandi sýn á hvernig móta má skipulag hjúkrunar hjá heilbrigðisstofnun með þríþætt hlutverk á sviði heilsugæslu, sjúkrahús- og hjúkrunarrýmaþjónustu. Hún hefur skýra sýn á árangursríkar leiðir í rekstri og stjórnun. Jafnframt hefur hún skarpa sýn á faglegt forystuhlutverk framkvæmdastjóra hjúkrunar og tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar heilbrigðisþjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með hagsmuni þjónustuþega að leiðarljósi.