Birta röntgenmynd af meltingarvegi manns sem var tekinn með kíló af kókaíni í FLE

Lögreglan á Suðurnesjum hefur aldrei fundið jafn mikið af fíkniefnum í líkama manneskju hér á landi og þegar mikið fatlaður karlmaður var tekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með rúmt kíló af kókaíni innvortis á síðasta ári. Kókaínið var í 106 pökkum í meltingarvegi mannsins.
“Sú leið að reyna að smygla fíkniefnum þá leiðina [Innsk. blm.: Í gegnum flugstöðina] verður því að teljast mjög áhættusöm fyrir þá sem það reyna. Að auki má minna á afdrif rúmlega tvítugs íslensks karlmanns sem kom með 42 pakkningar innvortis til landsins í október. Ein pakkningin tók að leka og var hann fluttur lífshættulega veikur með hraði á Landspítalann þar sem hann undirgekkst rúmlega þriggja klukkustunda skurðaðgerð.“ segir í tilkynningu sem lögreglu sendi frá sér í kjölfar fréttar um að lagt hafi verið hald á 42 kíló af hörðum fíkniefnum í FLE á síðasta ári.