Nýjast á Local Suðurnes

Hæsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang á Suðurnesjum

Hæsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang, þegar horft er til landshluta, er á Suðurnesjum en 22,3% íbúa í sveitarfélögunum fjórum er með erlent ríkisfang. Næst hæst er hlutfallið á Vesturlandi eða 15,5%. Lægsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang er á Norðurlandi vestra eða 6,8%.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman fjölda erlendra ríkisborgara sem eru búsettir hér á landi eftir sveitarfélögum. Tölurnar miðast við 1. desember 2018.

Þegar horft er til sveitarfélaganna á Suðurnesjum er hlutfallið í Reykjanesbæ 24,2%, í Vogum 19,1%, Í Suðurnesjabæ 18,8% og í Grindavík 16,9%.

Mýrdalshreppur er með hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara en alls eru 40% skráðra íbúa í Mýrdalshreppi með erlent ríkisfang eða 280 íbúar hreppsins af 687. Næst hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara er í Skaftárhreppi eða 28,3% og Bláskógabyggð með 25,7%.

Þess má geta að lægsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang er í Árneshreppi en enginn íbúi sem er með skráða búsetu í hreppnum er með erlent ríkisfang.
Skagabyggð kemur næst með 1,1% en þar er aðeins einn íbúi sveitarfélagsins með erlent ríkisfang.