Nýjast á Local Suðurnes

Tekinn með eitt mesta magn kókaíns sem fundist hefur – Verðmætið á annan tug milljóna

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú fíkniefnamál þar sem í hlut á  erlendur, líkamlega fatlaður karlmaður á fimmtugsaldri. Hann reyndist hafa innvortis eitt mesta magn fíkniefna sem lögregla hefur séð, eða rúmlega eitt kíló af kókaíni í 106 pakkningum. Maðurinn sætir nú gæsluvarðhaldi.

Það var 22. nóvember síðastliðinn sem tollgæslan stöðvaði manninn við komuna til landsins. Hann var þá að koma frá Frankfurt. Lögregla var kvödd til þar sem grunur lék á að maðurinn væri með fíkniefni innvortis. Hann var færður til röntgenmyndatöku og kom þá  ljós að hann var með mikið magn af aðskotahlutum innvortis sem reyndust vera kókaínpakkningarnar ofangreindu.

Umræddur maður hefur áður komið við sögu lögreglu í Belgíu vegna fíkniefnamála þar.

Samkvæmt vef SÁÁ kostar grammið af kókaíni um 16.000 krónur og því má áætla að verðmæti þess sem fannst á manninum sé yfir 16.000.000 króna. Rétt er að taka fram að verðin á vef SÁÁ eru frá lokum árs 2015.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005.  Í hann má hringja  til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.